Bæjarstjórn Kópavogs og fyrirtæki í bænum ætla að snúa bökum saman og stofna Markaðsstofu Kópavogs. Markmiðið er að efla atvinnulífið í bænum. Markaðsstofnan verður rekin með fjárframlögum frá Kópavogsbæ og þeim fyrirtækjum í bænum sem greiða árlega gjald til stofunnar.

Fram kemur í tilkynningu frá Kópavogsbæ að Markaðsstofan verði sett á laggirnar í bæjarstjórnarsal Kópavogsbæjar í hádeginu og verði þar kosnir fulltrúar atvinnulífsins í stjórn Markaðsstofunnar til næstu tveggja ára. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, mun stýra stofnfundinum.

Þá segir í tilkynningunni að ráðinn verði framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar sem mun annast daglegan rekstur og koma fram fyrir hönd stofunnar. Hann mun einnig halda úti sameiginlegum upplýsinga- og kynningarvef á þeirri fjölbreyttu starfsemi sem fram fer í bænum.