Í tillögu að fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2008, sem lögð var fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Kópavogs í gær, er gert ráð fyrir ríflega 2,2 milljarða króna rekstrarafgangi.

Í fréttatilkynningu frá Kópavogsbæ er reiknað með að heildartekjur sveitarfélagsins verði rúmir 17 milljarðar á næsta ári.

Útsvarið áfram í hámarki

Áætlað er að skatttekjur nemi tæpum 12 milljörðum króna og gert er ráð fyrir að heildartekjur bæjarins verði 14% hærri árið 2008 en árið 2007 sem er aukning um 14%. „Hækkunin byggist á spá um launaþróun, hagvöxt og fjölgun íbúa um rúmlega 1100 manns. Reiknað er með 10,4% hækkun útsvarstekna en útsvar verður óbreytt 13,03%" segir í tilkynningunni.

Fjárfestingar fyrir 6,9 milljarða króna

Heildarfjárfestingar á árinu 2008 eru áætlaðar 6,9 milljarðar króna. Af því er áætlað að verja rúmum 1,3 milljörðum króna til byggingar á íþróttamannvirkjum, tæplega 1 milljarði til byggingar skóla og leikskóla, rúmum 600 milljónum króna til þjónustumiðstöðvar aldraðra í Boðaþingi, um 2,4 milljörðum króna í nýframkvæmdir gatna og um 1 milljarði króna í kaup á lóðum og kaup á húsnæði fyrir húsnæðisnefnd Kópavogs.

Leikskólagjöld og vatnsskattur munu lækka á árinu. Grunngjald á leikskóla verður lækkað um15% en fæðisgjald hækkað um 5%. Gert er ráð fyrir að vatnsskattur í Kópavogi lækki um 10%, úr 0,13% af heildarfasteignamati í 0,117%, þar sem Vatnsveita Kópavogs hefur tekið í notkun eigið vatnsból í Vatnsendakrikum.

Sorphirðugjald hækkar úr 11.600 í 14.000 krónur á tunnu samkvæmt áætluninni.

Hækkun styrkja til íþrótta og tómstundaiðkunar

Áætlað er að íþrótta- og tómstundastyrkir hækki um 50% milli ára; styrkur til niðurgreiðslu á gjöldum vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar fari þannig úr 10 þúsund krónum í 15 þúsund krónur fyrir eina grein en úr 20 þúsund krónum í 30 þúsund krónur fyrir tvær greinar. Gert er ráð fyrir að efri aldursmörk hækki um 2 ár og aldursbil þeirra sem geta notið styrkjanna verði 5-16 ára segir í fyrrnefndri tilkynningu frá Kópavogsbæ.