Bæjarráð Kópavogs samþykkti á fundi sínum í gær að endurskoða kjör skuldabréfa og staðgreiðsluafslátt vegna úthlutunar á byggingarétti í Vatnsendahlíð síðastliðið haust. Tilgangurinn er að bregðast við breyttu efnahagsástandi segir í tilkynningu frá bænum. Heimildir Viðskiptablaðsins segja að talsvert hafi verið um það að einstaklingar og verktakar hafi skilað inn lóðum að undanförnu og er bærinn að bregðast við því. Þannig hafi hátt í 100 lóðum verið skilað undanfarið.

Í tillögu meirihlutans í bæjarráði, sem samþykkt var einróma, segir meðal annars:

„Í ágúst á síðasta ári var tekin sú ákvörðun af hálfu bæjarráðs að auglýsa til úthlutunar byggingarrétt fyrir íbúðarhúsnæði í Vatnsendahlíð í Kópavogi. Þann 13. nóvember sl. fór úthlutun fram í bæjarráði. Frá úthlutun hafa aðstæður á lána- og fasteignamarkaði gjörbreyst. Slíkar breytingar voru ekki fyrirséðar við töku ákvörðunar um úthlutun og hafa þær því komið niður á lóðarhöfum.

Vegna þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á efnahagsástandi leggja undirritaðir til að farið verði í endurskoðun á lóðarkjörum með tilliti til þess hvort unnt sé að koma til móts við lóðarhafa með bættum kjörum. Nánar tiltekið leggja undirritaðir til að komið verði til móts við lóðarhafa með endurskoðun á kjörum skuldabréfa auk þess sem staðgreiðsluafsláttur verði endurskoðaður.“

Í tilkynningu bæjarráðs kemur fram að ákvörðun um breytt kjör liggur fyrir hjá bæjaryfirvöldum í Kópavogi á næstu vikum og endanlega við útgáfu skuldabréfa.