Og Vodafone og Kópavogsbær hafa samið um að Og Vodafone taki yfir alla internet- og gagnaflutningsþjónustu bæjarins. Kópavogsbær ákvað fyrir skemmstu að byggja upp nýtt gagnaflutingsnet fyrir helstu stofnanir bæjarins. Öllum helstu fjarskiptafyrirtækjum landsins var gefinn kostur á hanna nýtt kerfi fyrir bæinn. Niðurstaðan var sú að gengið var til samninga við Og Vodafone og er samningurinn til þriggja ára.

Það voru Ásta Þórarinsdóttir, bæjarritari Kópavogs, og Örn Orrason, framkvæmdarstjóri fjarskiptasviðs Og Vodafone, sem skrifuðu undir samninginn.

Ljósleiðaranet Kópavogs verður hringtengt fyrir stærri stofnanir og minni stofnanir verða tengdar með SDSL sambandi. Um er að ræða 16 100 Mb/s ljóstengingar á milli stærri stofnanna en SDSL tengingarnar eru 2 Mb/s og eru samtals 20. Með hringtengingu netsins og öflugum varabúnaði er tryggt hámarksöryggi þjónustunnar á hagkvæmum kjörum. Gagnaflutningsnet Kópavogs verður með tengingum þessum eitt það fullkomnasta á landinu.

Og Vodafone þjónar þegar Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbæ, Garðabæ, Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Álftanesi. Með samningnum við Kópavogsbæ eru nú öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu komin í viðskipti við Og Vodafone.