Saga Capital Fjárfestingarbanki lauk í gær við opin skuldabréfaútboð fyrir Kópavogsbæ og sveitarfélagið Árborg. Seld voru skuldabréf fyrir Kópavogsbæ fyrir 3 milljarða króna og fyrir Árborg að upphæð einn milljarð króna að því er segir í tilkynningu.

Helstu kaupendur skuldabréfanna voru lífeyrissjóðir landsins. Í tilkynningunni segir að með skuldabréfaútgáfunni hafa sveitarfélögin nú tryggt sér fjármagn til áframhaldandi framkvæmda og til að mæta afborgunum eldri lána.

Skuldabréfaútboð Kópavogsbæjar fór fram dagana 16. til 29. desember. Um er að ræða verðtryggð jafngreiðslubréf í opnum flokki til 10 ára, með 5% nafnvexti og tveimur afborgunum á ári. Skuldabréfaútboð Árborgar fór fram dagana 19. til 29. desember. Það eru líka verðtryggð jafngreiðslubréf sem endurspegla HF 24, skuldabréfaflokk Íbúðalánasjóðs. Nafnvextir eru 5% og afborganir tvisvar á ári.

Askar Capital hafði umsjón með fjármögnuninni fyrir hönd sveitarfélaganna en Saga Capital Fjárfestingarbanki hafði umsjón með útboðinu og skráningu skuldabréfanna í Kauphöll Íslands.