Kópavogsbær hefur tekið 35.000.000 evrur að láni hjá Stokkhólmsútibúi hins franska Dexia Bank. Það samsvarar liðlega fjórum milljörðum íslenskra króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ en umsjón með lántökunni hafði Askar Capital.

Í tilkynningunni kemur fram að Kópavogsbær tekur lánið til að greiða upp eldri lán sem ekki eru eins hagstæð.

Þá kemur fram að Askar Capital leitaði tilboða hjá erlendum bönkum vegna lántöku Kópavogsbæjar. Tilboð sem bárust voru metin út frá kjörum og fleiri þáttum. Vextir á láni Dexia Bank eru 65 punktar ofan á EURIBOR, samkvæmt tilkynningunni.

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs segir að með tilliti til erfiðra aðstæðna á lánamarkaði sé afar ánægjulegt að Kópavogsbær hafi fengið svo hagstætt erlent lán sem raun ber vitni.

„En það sýnir umfram allt hve staða bæjarsjóðs er sterk og bæjarfélagið í góðu áliti. Með láninu endurfjármögnum við eldri lán, bæði í íslenskri og erlendri mynt, en aukum ekki skuldir bæjarins,“ segir Gunnar.

Þórður Jónasson, framkvæmdastjóri hjá Askar Capital segir Kópavogsbæ vera traustan lántakanda og hafi fengið góðar viðtökur hjá þeim bönkum í tengslaneti Askar Capital sem sérhæfa sig í lánveitingum til sveitarfélaga.

„Sú staðreynd að kjör bæjarins eru mun betri en skuldatryggingarálög á íslenska banka og ríkissjóð gefa tilefni til bjartsýni,“ segir Þórður.