Kópavogsbær hefur tekið í notkun IP símkerfi frá Nýherja sem, samkvæmt tilkynningu frá Kópavogsbæ, bætir þjónustu við íbúa og einfaldar aðgengi þeirra að stofnunum bæjarins.   Um er að ræða Avaya Communication Manager IP símkerfi sem tengir allar stofnanir Kópavogsbæjar.

Í tilkynningunni kemur fram að með því að nýta gagnaflutningsnet bæjarins verða símtöl milli stofnana þeim að kostnaðarlausu. Þá er hægt að bjóða sameiginlega símsvörun í gegnum eitt símanúmer og samtengingu við GSM síma starfsmanna sem eru á ferðinni.   Enn fremur mun starfsfólk Kópavogsbæjar eiga þess kost að tengjast eigin innanhúss símanúmeri í gegnum tölvusíma eða VPN símtæki óháð staðsetningu.

„Þess konar lausn hentar starfsfólki sem er mikið á ferðinni eða þarf að vinna tímabundið heiman frá sér,“ segir í tilkynningunni.

„IP símlausnin mun því lækka símkostnað bæjarins til lengri tíma litið.“   „Þetta er í takt við þá stefnumörkun Kópavogsbæjar að veita íbúum bæjarfélagsins bestu þjónustu sem völ er á,“ segir Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi í tilkynningunni.

„Aðgangur að starfsmönnum bæjarins verður greiður með nýju símkerfi og deildir, svið og stofnanir bæjarins vinna saman sem ein heild í þágu bæjarbúa.“