Kópavogsbær hefur sagt upp þjónustusamningi við ÓB-ráðgjöf sem hefur í för með sér að fyrirtækið hætti rekstri leikskólans Hvarfs 30. apríl næstkomandi, segir í fréttatilkynningu.

Í framhaldi af uppsögn samningsins fjallaði leikskólanefnd hinn 12. febrúar sl. um mismunandi rekstrarform fyrir leikskólann Hvarf og bókaði eftirfarandi:

Leikskólanefnd ræddi þrjár leiðir mögulegar varðandi rekstur leikskólans Hvarfs, samanber meðfylgjandi vinnuplagg:

A) Að nýr rekstraraðili taki við þjónustusamningi við Kópavogsbæ,

B) að Kópavogsbær taki sjálfur að sér reksturinn og

C) að reksturinn verði boðinn út.

Óvissa og erfitt ástand hefur ríkt í leikskólanum Hvarfi síðan í október. Leikskólanefnd telur afar mikilvægt að binda enda á það óvissuástand sem allra fyrst. Nefndin telur þá leið færasta að Kópavogsbær taki sjálfur við rekstrinum og eyði þannig allri óvissu.

Bæjarráð Kópavogsbæjar staðfesti í gær afgreiðslu leikskólanefndar og fól fræðslustjóra, leikskólafulltrúa, bæjarlögmanni og starfsmannastjóra að hefja undirbúning að yfirtöku bæjarins á rekstri leikskólans í samræmi við afgreiðslu leikskólanefndar.