Fasteignagjöld af íbúðar- og atvinnuhúsnæði, vatnsskattur og sorphirðugjöld lækka í Kópavogi í upphafi næsta árs, samkvæmt tillögu meirihluta bæjarstjórnar að fjárhagsáætlun fyrir árið 2013. Tillagan var lögð fram til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi síðdegis í gær, að því er kemur fram í tilkynningu frá bænum.

Þar segir að áhersla sé lögð á lækkun skulda og reiknað með að inn á þær verði greiddir rúmir tveir milljarðar á næsta ári. Gert er ráð fyrir að skuldahlutfall Kópavogsbæjar, þ.e.a.s. skuldir sveitarfélagsins deilt með rekstrartekjum, lækki úr 244% niður í 206%. Samkvæmt lögum eiga sveitarfélög að vera búin að ná þessu hlutfalli niður fyrir 150% fyrir 1. janúar 2023. Ef fram heldur sem horfir nær Kópavogsbær þessu viðmiði í síðasta lagi árið 2018, segir í tilkynningunni.

Rekstrarafgangur samstæðu Kópavogsbæjar verður 126 milljónir króna á næsta ári samkvæmt áætluninni og veltufé frá rekstri 2.860 milljónir.