Kópavogsbær og sveitarfélagið Árborg hafa samið við Saga Capital Fjárfestingarbanka um sölu og umsjón á opnu skuldabréfaútboði á innlendum verðbréfamarkaði.

Nú þegar er búið að selja skuldabréf fyrir Kópavogsbæ fyrir alls 2,4 milljarða en bærinn stefnir að því að sækja sér alls 3 milljarða að láni með skuldabréfaútgáfunni, að því er fram kemur í tilkynningu frá Saga Capital.

Skuldabréfaútboð Árborgar er upp á einn milljarð króna og af því er búið að selja 860 milljónir.

Ómar Sigtryggsson, framkvæmdastjóri Markaðsviðskipta Saga Capital, segir að vel hafi gengið að selja skuldabréfin. Helstu kaupendur séu lífeyrissjóðir. ,,Þetta er afar mikilægt framlag af þeirra hálfu til að koma af stað eðlilegri hreyfingu á fjármagnsmarkaðinn.“

Markmið skuldabréfaútgáfunnar er að tryggja sveitarfélögunum fjármagn til framkvæmda á næstu misserum og mæta afborgunum eldri lána. Stefnt er að því að ljúka skuldabréfaútboðunum fyrir áramót.

Askar Capital hefur umsjón með fjármögnuninni

Bréf Kópavogsbæjar eru verðtryggð jafngreiðslubréf í opnum flokki til 10 ára, með 5% nafnvexti og tveimur afborgunum á ári. Bréf Árborgar eru líka verðtryggð jafngreiðslubréf  sem endurspegla HF 24, skuldabréfaflokk Íbúðalánasjóðs.

Nafnvextir eru 5% og afborganir tvisvar á ári.

Ómar segir að sveitarfélög landsins hafa ekki síður en aðrir orðið fyrir barðinu á lánsfjárkreppunni ,,og það eru því mjög góð tíðindi, að þau geti sótt sér lán með þessum hætti. Þetta er í fyrsta sinn í þrjú ár sem sveitarfélög hafa tekið lán með skuldabréfaútboði og þetta hefur komið góðri hreyfingu á markaðinn.“

Askar Capital hefur umsjón með fjármögnuninni fyrir hönd sveitarfélaganna en Saga Capital Fjárfestingarbanki hefur, sem fyrr segir, umsjón með útboðinu og mun sjá um skráningu skuldabréfanna í Kauphöll Íslands.