Kópavogur hefur náð samkomulagi við Dexia Crédit Local um framlengingu á tíu milljóna evra hluta af 35 milljóna evra eingreiðsluláni. Tilgangurinn er að dreifa kaupum á gjaldeyri fram á haustið 2013, að því er segir í tilkynningu. Eftirstöðvarnar verða greiddar með tveimur jöfnum afborgunum þann 30. ágúst og 30. september í ár.

Í tilkynningunni segir jafnframt að bærinn hafi gert samkomulag við ónefndan innlendan banka um aðgang að skammtíma lánalínu fyrir allt að tíu milljónir evra einnig í þeim tilgangi að draga úr þörf á gjaldeyriskaupum nú á vormánuðum. Verði þessi lánalína notuð, þá verður hún uppgreidd fyrir haustið 2013.