Kóresk farþegaflugvél keyrði utan í flugvél Icelandair á Heathrow-flugvellinum í London um sjöleytið í kvöld. Svo virðist sem vængur flugvélar Korean Air hafi snert stél Icelandair-vélarinnar. Flugi Icelandair frá Heathrow til Keflavíkur í kvöld hefur verið aflýst í kjölfar atviksins.

Áreksturinn átti sér stað þegar vélarnar tvær voru akandi til biðstaðar (e. taxiing) á flugbrautinni. Mikill viðbúnaður var á Heathrow í kjölfar atviksins.

Sjónarvottur sagði við Daily Mail að Korean Air vélin hafi skrapað utan í 767-vél Icelandair en tók fram að ekki hefði verið um harðan árekstur að ræða.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði við Vísi að enginn hafi slasast og allir farþegar séu komnir inn í flugstöð.

„Flugvél Icelandair sem var að koma til Heathrow var stopp á flugvellinum og var að bíða eftir þjónustu. Þá rakst önnur vél utan í sem var að keyra fram hjá,“ sagði Guðni við Vísi. 

Deilt hefur verið myndum af skurði í stéli Icelandair-vélarinnar og af viðbragðsaðilum úti á flugbrautinni á samfélagsmiðlinum Twitter í kvöld.