Suðurkóreönsku fyrirtækin UAE’s Bin Din Group og PEDCO hafa átt í viðræðum um svokallað Thar Coal verkefni sem miðar að því að reisa 1000 megavatta raforkuver í Pakistan. Eins og nafnið bendir til mun orkuverið ganga fyrir kolum. Búist er við að viljayfirlýsing verði undirrituð í dag.

Greint er frá því á vefsíðu The News International að Pakistanar hafi áður átt í viðræðum við kínverska fyrirtækið Shenhua Group Corporation um sama verkefni. Upp úr þeim viðræðum slitnaði í byrjun mars.

Ef af samstarfinu við Kóreumenn verður mun þessi framkvæmd hafa mikil áhrif á efnahagslífið í Pakistan. Ráðgert er að tvær milljónir heimila muni njóta góðs af orku frá verinu auk sex efnaverksmiðja. Þá er reiknað með að orkuverið muni skapa vinnu fyrir 90 þúsund manns, auk þess sem byggja þarf upp skóla, sjúkrahús og aðra þjónustu í tengslum við orkuverið.