Suður Kóreskir fjárfestar hafa staðfest áhuga sinn á bandaríska fjárfestingabankanum Lehman Brothers. Talsmaður Kóreska Þróunarbankans (Korean Development Bank), sem er í eigu S-Kóreska ríkisins, hefur tilkynnt um yfirstandandi viðræður bankanna.

Fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC, greinir frá þessu.

Lehman Brothers hefur nú þegar staðið af sér afskriftir fjárfestinga að andvirði milljarða bandaríkjadala vegna lánsfjárkreppunnar.

Bankinn vonast til þess að geta aukið eigið fé sitt um sex milljarða bandaríkjadala með fjárfestingum kóreska bankans. Lehman vinnur einnig að öðrum aðgerðum með kínverskum og arabískum fjárfestum.

Í S-kóreskum fjölmiðlum er haft eftir bankastjóra Kóreska Þróunarbankans að bankinn hafi enn ekki samið um ásættanlegt kaupverð við Lehman Brothers. Því sé erfitt að spá fyrir um það hvort að af kaupunum verði.