*

föstudagur, 19. júlí 2019
Fólk 14. febrúar 2016 20:05

Körfubolti er alpha og omega

Anna Björk Bjarnadóttir tók nýlega við starfi framkvæmdastjóra hjá ráðgjafafyrirtækinu Expectus.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Anna Björk Bjarnadóttir hefur starfað hjá ráð­gjafafyrirtækinu Expectus frá árinu 2013 en hún tók nýlega við sem framkvæmdastjóri félagsins. Spurð hvernig það hafi komið til að hún tók við framkvæmdastjórastöðunni segir Anna Björk: „Ragnar Þórir Guðgeirsson, sem er búinn að stýra fyrirtækinu meira og minna frá stofnun, langaði til að einbeita sér enn frekar að ráðgjöfinni og minnka stjórnunina svolítið. Það er búið að liggja fyrir að leita að nýjum framkvæmdastjóra, svo ákváðu þeir bara að ræða við mig um það. Þetta var ekki flóknara en það.“

Lítið körfuboltasamfélag

Anna Björk á sér mörg áhugamál utan vinnu. „Fyrst er það körfubolti, sem er svona alpha og omega í minni fjölskyldu, við erum öll meira eða minna í því, bæði börn og fullorðnir. Það fer mikill tími í að fylgjast með körfubolta og íþróttum almennt.“

Anna Björk og eiginmaður hennar voru bæði í körfuboltalandslið­inu á sínum tíma, en hún segir að þau hafi kynnst í gegnum körfuboltann. „Nú erum við bara að fylgjast með krökkunum og öðrum í körfuboltasamfélaginu. Þetta er svo lítið samfélag á Íslandi þannig að það er eiginlega svona pínu fjölskyldustemming í kringum þessa íþrótt.“ Anna er þriggja barna móðir, þar af eru tvö þeirra á þrítugsaldrinum. „Þau eru bæði á kafi í körfuboltanum, þau spila bæði í efstu deild og annað­ hvort komin í landsliðið eða í landsliðshóp.“

Auk þess að spila körfubolta þá málar Anna Björk í frístundum. „Ég ætlaði einhvertímann að vera myndlistarmaður þegar ég var ung, en svo hef ég bara gert það að áhugamáli í staðinn.“ Anna Björk segir að hún hafi ekki málað mikið síð­ an hún eignaðist yngsta barnið, en það er fjögurra ára í dag. „Ég var með vinnustofu og hef líka stundað myndlistaskólann í Reykjavík, var svona eilífðarstúdent þar. Ég mála helst raunsæismyndir, ekki abstrakt, portrett eða landslag og svo framvegis.“ Anna er frá Borgarnesi og hún segist vera ofsalega hrifin af því að mála Hafnarfjall og Borgarfjörðinn sjálfan.

Nánar er rætt við Önnu Björk í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Innskráning.