Ólafur Eggertsson bóndi á Þorvaldseyri segir að um 15 til 20 bændur hafi stundað kornrækt í sumar undir Eyjafjöllum. „Heildarframleiðsla bænda hér er töluvert á annað þúsund tonn, eða eins og einn skipsfarmur. Þetta er því ekkert nema gjaldeyrissparnaður og fóðurkaup eru óþörf erlendis frá. Á landinu öllu gæti ég trúað að uppskerann sé um 20.000 tonn þetta árið. Þetta er aðallega bygg, en hveitirækt er ekki nema í litlu mæli ennþá."

Segist Ólafur telja að það séu um 4.000 hektarar lagðir undir kornræktina á landinu í dag. Nóg sé til af landi til frekari kornræktar. "Við göngum ekki á það þó við þreföldum ræktunina. Þá hefur aldrei verið eins hagstætt að ræta korn á Íslandi.

Hann segir að á Þorvaldseyri sé uppskeran í ár um 200 tonn. Þá hefur hann einnig verið að rækta repju, en úr henni er unnin matarolía. Þá segir Ólafur að verið sé að skoða dálítið stóra hluti varðandi vinnslu á korni fyrir ölgerð hér á landi.

„Við seljum yfirleitt frá okkur um 100 tonn, en notum hitt sjálfir. Svo erum við að taka besta kornið í hveiti og bygg og seljum undir nafni Eyrarbúsins ehf. Það er sérstakt gæðakorn sem við notum í það. Það er vaxandi markaður fyrir þetta og gengur mjög vel. Við pökkum þessu hér heimavið og sendum í bakaríin í stærri einingum, þ.e. 25 kílóa pokum. Svo er Kornax í Reykjavík okkar samstarfsaðili í þessu og annast kynningu, sölu og dreifingu fyrir okkur.

Það er frábært að það hafi tekist svona góð samvinna. Við erum hér í sveitinni að rækta og þeir eru í borginni og dreifa fyrir okkur um allt land. Þarna gerir hver og einn það sem þeir eru bestir í að gera."

Ólafur segir að alltaf megi deila um hvort verðið sé nógu gott, en menn reyni bara að gera sitt besta.

„Við erum ekki með erfiðar fjárfestingar á bakinu við þetta ennþá. Við ætlum okkur að þróa tæknina við pökkunina og fleira í rólegheitum þegar við sjáum hvort þetta verði einhver markaður að ráði.

Ólafur segir að mikil samvinna sé meðal bændanna undir Eyjafjöllum og samnýting á vélbúnaði við kornræktina. Það eigi bæði við uppskeruvélar og þurrkara.