Kornverð hækkaði um 0,5% á markaði í Bandaríkjunum í gær, eftir að hafa lækkað um 2,3% í síðustu viku, en þar á undan hafði það hækkað í tvær vikur samfleytt.

Verð á korni hefur hækkað um 56% síðastliðið ár, í takt við verð á öðrum hráefnum á heimsmarkaði. Verðið á skeppunni, sem er 1/8 úr tunnu, er nú 5,7925 dollarar, en náði sögulegu hámarki í 6,16 dollurum 9. apríl.

Samkvæmt frétt Bloomberg-fréttaveitunnar var í gær að vænta skýrslu frá landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna um það hvernig gengi að sá korni og öðrum nytjaplöntum, m.a. hveiti, og biðu fjárfestar spenntir eftir þeim tölum.

Fæstir telja að verð á korni og öðrum hrávörum hafi náð hámarki, þrátt fyrir lækkun undanfarinna daga, enda eru blikur á lofti á hrávörumarkaði nú um stundir.

Víðtækar afleiðingar

Rétt eins og aðrar hrávörur hefur korn hækkað feikilega mikið á undanförnum árum. Hækkunin er meðal annars rakin til aukinnar eftirspurnar eftir korni vegna aukinnar framleiðslu á lífrænu eldsneyti. Bandaríkjamenn hafa til að mynda lagt mikla áherslu á slíka framleiðslu vegna umhverfisverndarsjónarmiða og til þess að draga úr því hversu háðir þeir eru innfluttri olíu. Þessi þróun hefur haft víðtæk áhrif.

Hið háa kornverð hefur meðal annars leitt til óróa í ríkjum á borð við Mexíkó, en kotbændur hafa til að mynda mótmælt ástandinu. Sem kunnugt er eru kornbökur er nefnast tortillur undirstaða dagneyslu þarlendra og hafa því hækkanir á korni komið illa við mexíkóska fátæklinga.

Lýtur korntoppurinn öðrum lögmálum?

Þrátt fyrir að margir sérfræðingar telji að hrávöruverð á heimsmarkaði kunni á endanum að lækka sökum þess að eftirspurn minnki vegna minni umsvifa í hagkerfum ríkja á borð við Kína og Indland, telja sumir að þetta muni ekki gilda um korn: Eins og fyrr segir eru hækkanir á korni að miklu leyti raktar til aukinnar áherslu á framleiðslu á lífrænu eldsneyti.

Þeir sem að telja að verðið á korni muni ekki lækka á næstu misserum benda á að slík framleiðsla sé óteygin – það er að segja sé ekki viðkvæm fyrir hagsveiflum – þar sem hvatinn að baki hennar sé áhyggjur af útblæstri gróðurhúsalofttegunda.