Yngsti milljarðarmæringur á lista Forbes-tímaritsins yfir auðmenn heimsins er aðeins 23 ára gamall og er talinn eiga um 1,5 milljarða dollara.

Þetta efnaða ungmenni heitir Mark Zuckerberg og á hinn vafasama heiður af að hafa stofnað samskiptasíðuna Facebook í ferbúar árið 2004. Fyrirtækið var stofnað á herbergi hans á heimavist Harvard-háskóla í Bandaríkjunum.

Síðar sama ár fékk hann vinnu í Silicon-dalnum, miðstöð tölvutækni í Bandaríkjunum, þar sem hann hitti einn stofnenda PayPal-greiðslukerfisins sem fjárfesti hálfa milljón dollara í hugmynd Zuckerbergs.

Í dag eru virkir notendur Facebook um 66 milljón talsins á heimsvísu og áætluð sala á ári er um 150 milljónir dala. Microsoft keypti 1,5% í Facebook í október síðast liðnum fyrir 240 milljónir dala, sem þýddi í raun að fyrirtækið væri 15 milljarða dollara virði. Sumir greiningaraðilar telja þó að fyrirtækið sé ofmetið.

Auðugir erfingar

Næstur í röðinni yfir ungmenni sem eru einstaklega loðin um lófana er hinn 24 ára gamli Þjóðverji Albert von Thurn und Taxis, sproti af gamalli aðalsætt sem erft hefur gríðarlegar eignir.

Hann er talinn eiga andvirði 2,3 milljarða dollara, sem gerir hann ríkasta æskumanninn.

Þriðji í röðinni er jafnaldra hans, hin líbanska Hind Hariri, yngsta dóttir fyrrum forsætisráðherra Líbanons, Rafik Hariri, sem var myrtur. Hún erfði ásamt bræðrum sínum fjórum hlut í verktaka- banka – og fjölmiðlaveldi fjölskyldunnar, og er talin eiga sem nemur 1,1 milljarði dollara.