Fransk-hollenska flugfélagið Air France-KLM gerir ráð fyrir því að útbreiðsla kórónaveirunnar verði til þess að hagnaður félagsins dragist saman um 162 – 216 milljónir dollara á fyrsta ársfjórðungi 2020 samkvæmt tilkynningu frá félaginu fyrr frá því fyrr í dag en félagið hefur framlengt flugbann sitt til Kína til marsloka.

Air France KLM birti fyrr í dag uppgjör sitt fyrir árið 2019 en hagnaður félagsins nam 293 milljónum evra og dróst saman um 129 milljónir milli ára. Tekjur námu 27,2 milljörðum evra og jukust um 3,6% milli ára.

Þá mun kórónaveiran einnig hafa töluverð áhrif á ástralska flugfélagið Qantas sem gerir ráð fyrir að hagnaður dragist saman um allt að 99 milljónir dollara á árinu. Qantas hefur dregið flugframboð til Asíu saman um 15%.

Í yfirlýsingu frá Alan Joyce, forstjóra Qantas segir hann að kórónaveiran, sem hafi leitt til flugbanns til Kína sé einnig farin að hafa hliðaráhrif þar sem eftir spurn eftir flugi til Hong Kong og Singapúr hafi dregist verulega saman auk þess samdráttur hafi orðið í flugi til Japan.

Qantas hefur nú þegar gripið til aðgerða til þess að þurfa ekki að segja upp fólki vegna samdráttarins. Þær aðgerðir fela meðal annars í sér að ráðningar hafa verið stöðvaðar auk þess sem starfsfólk hefur verið beðið um að nýta frítíma sinn meðan ástandið stendur yfir.