Verð á gulli hefur rokið upp á undanförnum dögum og hefur það ekki verið hærra í sjö ár. Áhyggjur fjárfesta af áhrifum kórónuveirunnar á alþjóðleg viðskipti munu hafa orðið til þess að þeir hafa í auknum mæli leitað eftir öruggum fjárfestingum. BBC greinir frá.

Í morgun hækkaði gullverð um rétt rúmlega 2% og hefur það, líkt og áður segir, ekki verið hærra síðan í febrúar 2013.

Verð á hverja únsu af gulli nam um 1.679 dollurum í morgun en hefur síðan þá lækkað örlítið. Á sama tíma herjuðu lækkanir á helstu hlutabréfamarkaði í Evrópu og má sem dæmi nefna að úrvalsvísitala kauphallarinnar í London, FTSE 100, féll um rúm 3% í fyrstu viðskiptum dagsins.