Kortaþjónustan hefur sent kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna meintra margvíslegra og ítrekaðra brota Valitors á samkeppnislögum og nokkrum tilteknum skilmálum þeirrar sáttar sem fyrirtækið gerði við Samkeppniseftirlitið á síðastliðnu ári.

Ekki hefur náðst í forstjóra Valitors vegna málsins í dag, en Jóhannes I. Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar, segir sérkennilegt að menn haldi áfram uppteknum hætti eftir að hafa viðurkennt sekt og gert sátt um slík mál fyrir aðeins einu og hálfu ári.

Húsleit var reyndar gerð hjá Valitor 1. júlí eftir að fyrirtækið Borgun hafði sent kvörtun til Samkeppniseftirlits. Þá hafði Kortaþjónustan einnig verið með mál í gangi á kortaútgefendur viðskiptabankanna, en ekki er ljóst hvort húsleitin tengdist því máli.

„Þeir eru í raun að brjóta á sáttinni sem gerð var við Samkeppniseftirlitið. Málið nú snýst um að Valitor er að bjóða sértækar verðlækkanir á þjónustu til ákveðinna viðskiptavina sinna. Það þýðir í raun að ef við gerum tilboð til einhvers fyrirtækis sem er í viðskiptum við þá, þá bjóða þeir sama fyrirtæki lækkun svo að það færir sig ekki frá þeim. Sem markaðsráðandi fyrirtæki mega þeir þetta í raun ekki og verða þá að lækka verð til allra á sama markaði. Að öðrum kosti geta þeir útrýmt allri samkeppni með því að koma í veg fyrir að nokkur viðskiptavinur fari yfir til annars fyrirtækis.”

Jóhannes segist telja að Valitor sé nú með um 65% markaðshlutdeild í hér á landi, Borgun sé með um 25% og Kortaþjónustan með um 10% markaðshlutdeild.

„Ekki er nema eitt og hálft ár síðan Valitor, Borgun og Fjölgreiðslumiðlun náðu sáttum við Samkeppniseftirlitið um greiðslu á 735 milljóna kr. sektum, þar sem fyrirtækin viðurkenndu langvarandi og víðtæk samkeppnislagabrot. Á síðustu misserum hefur flestum stjórnendum verið skipt út hjá Valitor. Því miður virðist sem sama vanvirðingin við samkeppnislög sé enn ráðandi þar á bæ,“ segir Jóhannes Ingi Kolbeinsson.

Hann segist ekki gera sér grein fyrir hvaða viðurlög felist í því þegar fyrirtæki brýtur samkomulag sem gert hefur verið Samkeppniseftirlitið. Ætla mætti að slíkt yrði sent áfram til ríkissaksóknara þó hann vilji ekkert fullyrða um það.