Kortaþjónustan varð fyrir skömmu fullgildur aðili að alþjóðlegu greiðslukortafyrirtækjunum VISA Europe og Mastercard International. Það gerir Kortaþjónustunni kleift að annast bæði debet- og kreditkortauppgjör alfarið hér á Íslandi, en áður fór kortauppgjör Kortaþjónustunnar fram í gegnum danska fyrirtækið Teller.

Í kjölfar þess hefur Kortaþjónustan gert nýjan samning við viðskiptavini sína og sinnir nú kortauppgjöri í eigin nafni. Í tilkynningu frá Kortaþjónustunni segir að langstærstur hluti uppgjöranna sé nú framkvæmdur beint hér á landi á vegum Kortaþjónustunnar.

Viðar Þorkelsson er framkvæmdastjóri Valitors, eins stærsta samkeppnisaðila Kortaþjónustunnar. Hann sagði í samtali við Viðskiptablaðið, sem kom út í dag, að Kortaþjónustan væri útibú frá danska fyrirtækinu Teller sé sé þrettán sinnum stærra en Valitor og eitt stærsta fyrirtæki sinnar tegundar í Evrópu.

"Alþjóðlegu fyrirtækin Visa og Mastercard horfa á Evrópu sem einn markað og veita afslætti í samræmi við það. Þannig fær Teller mun meiri afslátt í krafti stærðar sinnar en Valitor. Afleiðingin er meðal annars sú að kostnaður Teller við færsluhirðingu á Íslandi er mun minni en kostnaður Valitor. Við samanburð á íslenskum aðstæðum og evrópskum hefur aldrei verið tekið tillit vaxtastigsins hér á landi sem er miklu hærra en í Evrópu. Menn þurfa að stíga varlega til jarðar í ljósi séríslenskra aðstæðna og ekki taka allt hrátt upp frá Evrópusambandinu. Þessar ólíku aðstæður íslensku fyrirtækjanna og þeirra erlendu hafa að einhverju leyti skekkt samkeppnina."