Áhrif vegna bráðabirgðaákvæðis sem fól í sér að atvinnuleysisbótaréttur var framlengdur í fjögur ár eru nú að koma fram. Fjögur ár eru síðan ákvæðin tóku gildi og er bótaréttur þeirra sem missti vinnuna í kjölfar hrunsins að renna út. Áhrifin koma einna best í ljós þegar skráð atvinnuleysi er skoðað eftir að búið er að bæta við þeim einstaklingum sem fá fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögum. Semsagt þeir sem hafa verið atvinnulausir í meira en 4 ár.

Raunverulegt atvinnuleysi þeirra að viðbættum þeim sem eru á bótaréttindum var því ekki 4,8% í júní sl. heldur ríflega 5,5% samkvæmt samantekt sem Samband íslenskra sveitarfélaga birti fyrir stuttu. Talan fer enn hærra upp ef einnig er tekið mið af þeim sem eru í vinnumarkaðsúrræðum á vegum Vinnumálastofnunar en þá hækkar atvinnuleysistalan í 6,4%. Á heildina litið má því ætla að dulið atvinnuleysi sé hærra en birtar tölur gefa til kynna, samkvæmt greiningardeild Arion banka.

Í Markaðspunktum deildarinnar segir m.a. að samhliða því sem hagvöxtur tók að mælast þá fór störfum að fjölga. Á sama tíma eru vinnustundir enn talsvert undir því sem tíðkaðist fyrir hrun, hér gæti ein möguleg skýring verið að hlutfallslega hafi hlutastörfum fjölgað mun hraðar en öðrum störfum (full störf).

Þá segir í Markaðspunktunum að aukin umsvif í hagkerfinu kalli eftir aukinni eftirspurn eftir vinnuafli og slík þróun komi bersýnilega í ljós í batamerkjum á vinnumarkaði. Greiningardeildin segir að hagkerfið hafi hægt og bítandi verið að rétta úr kútnum og hefur hagvöxtur mælst nú sjö ársfjórðunga í röð. Nú eru hins vegar að koma fram vísbendingar um að farið sé að hægja á vextinum og nægir að skoða þróun á kortaveltu heimila, en kortaveltan gefur ágætis vísbendingu um hvernig gangurinn er í hagkerfinu.