Kreditkortavelta landsmanna í maímánuði nam 25 milljörðum króna sem er um það bil 3 milljörðum króna meiri velta en í maí í fyrra. Þegar leiðrétt er fyrir verðlagsþróun og gengi er aukning veltu á milli maímánuða 6,4% að raungildi. Raunbreyting kreditkortaveltu gefur góða vísbendingu um þróun einkaneyslu.

Velta á milli apríl og maí var um 16,3% í krónum talið. Greining Íslandsbanka segir ljóst af tölum um úttektir erlendra debet- og kreditkorta í maí að ferðamannatímabilið er hafið. Heildarúttekt erlendra korta hér á landi var 3,1 milljarður króna en meðaltal fyrstu fjögurra mánaða ársins nam 2,4 milljörðum á mánuði. Tölur yfir kreditkortaveltu ásamt öðrum tölum munu skera úr um hversu mikil áhrif eldgossins verða á ferðamannastraum. Fyrir ári síðan nam velta erlendra korta 3,5 milljarða króna.