Greiðslukortavelta nam 86,3 milljörðum króna í maí úr 70,2 milljörðum í apríl, sem er 23% aukning á milli mánaða og 15,7% aukning frá því í maí í fyrra. Þetta kemur fram í greiningu frá rannsóknarsetri verslunarinnar .

Kortavelta erlendra ferðamanna var 5,6 milljarðar króna í maí sem nemur um 6,5% af heildarkortaveltunni samanborið við 2,9 milljarða erlenda kortaveltu í apríl. Enn er þó nokkuð langt í land þangað til að erlend velta nær sama hlutfalli og í maí fyrir tveimur árum síðan Þegar að erlend kortavelta var 22,3% af heildarveltunni. Meirihluti veltunnar í mánuðinum kemur frá bandarískum ferðamönnum en þeir eru ábyrgir fyrir 67,2% veltunnar.

Innlend kortavelta jókst um 10% á milli ára og virðist allt stefna í að Íslendingar ætli aftur að vera duglegir að ferðast innanlands í sumar. Innlend kortavelta gististaða í mánuðinum nam rúmum milljarði króna samanborið við 600 milljónir króna í maí fyrir ári síðan. Þó ber að hafa í huga að miklar verðlækkanir voru í fyrra sem verða ekki endurtekinar í ár.

Tollfrjáls verslun er aftur farin að sækja í sig veðrið en hún jókst um 52% á milli mánaða og um 281% frá maí í fyrra. Því virðast Íslendingar vera farnir að ferðast til útlanda í auknum mæli.