Kortavelta erlendra ferðamanna í íslenskum krónum jókst um tæp 28% í apríl 2017 samanborið við sama mánuð á síðasta ári. Á sama tíma fjölgaði erlendum ferðamönnum um 62%. Þetta kemur fram í frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins .

Var þetta fimmti mánuðurinn í röð þar sem vöxtur í fjölda ferðamanna var meiri en vöxtur í kortaveltu. Frá ársbyrjun 2015 til nóvember 2016 var vöxtur í kortaveltu meiri en vöxtur í komu erlendra ferðamanna. Þróunin snerist hins vegar við í desember síðastliðnum þegar vöxtur í kortaveltu tók að minnka.

Erlendum ferðamönnum sem komu til Íslands á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs fjölgaði um 56% miðað við sama tímabil í fyrra og virðist því gengisstyrking íslensku krónunnar, enn sem komið er ekki hafa verulega áhrif á fjölgun erlendra ferðamanna sem hingað koma.

Segir í frétt ráðuneytisins að leiða megi líkur að því að þó styrking krónunnar virðist ekki hafa mikil áhrif á fjölda ferðamanna sem sækja Ísland heim þá hafi gengi krónunnar áhrif á neyslu þeirra í krónum. Ferðamenn ákveði, meðvitað og ómeðvitað, hve miklu það ætli að eyða í sinni heimamynt í heimsókn sinni til landsins og sú neysla haldist óbreyt á meðan hún sveiflist í íslenskum krónum í samræmi við gengissveiflur krónunnar.

Í aprílmánuði nam samdráttur í kortaveltu á hvern erlendan ferðamann um 21%, samanborið við apríl á síðasta ári. Það er nokkuð mikill samdráttur en mánuðina fjóra á undan en í ágætu samræmi við gengisstyrkingu krónunnar undanfarna 12 mánuði sem nam rúmum 17% segir í frétt ráðuneytisins. Það er þó athyglisvert að samdrátturinn nam 7,3% þegar leiðrétt er með gengisvísitölu. Hefur svo mikill samdráttur í erlendri mynt ekki sést síðan í desember 2013.

Í lok fréttarinnar segir að ekki komi á óvart að talsverð styrking krónunnar hafi áhrif á eyðslu erlendra ferðamanna hér á landi í krónum. Gengisstyrkingin hefur jafnframt aukið kaupmátt Íslendinga á erlendri grundu og hefur kortavelt Íslendinga í útlöndum sjaldan verið meiri en í apríl 2017. Segir ráðuneytið þetta vera gott dæmi um  hvernig gengisstyrking heldur aftur af ofhitnum hagkerfisins með því að beina eftirspurn úr landi. Gengisstyrking krónunnar sé því ekki aðeins afleiðing af miklum vexti í ferðaþjónustu, heldur myndar styrking krónunnar einnig mótvægi gegn áframhaldandi örum vexti greinarinnar.