Greiðslukortavelta nam 101 milljarði króna í ágústmánuði sem er um fjórðungs aukning frá sama mánuði í fyrra. Veltan dróst hins vegar saman um 7% á milli júlí og ágúst. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Kortavelta Íslendinga hér á landi nam 76,9 milljörðum í ágúst eða um 76% af heildarveltunni. Um er að ræða 10,5% samdrátt frá júlí síðastliðnum en ef veltan í ágúst er borin saman við ágúst 2020 þá var aukning um 10,5%. Fram kemur að hefðbundna árstíðarsveiflu eigi sér stað frá júlí til ágúst á ári hverju. Þrátt fyrir þennan árstíðabundna samdrátt á milli mánaða þá er aukning, umfram verðbólgu, á milli ára í flestum flokkum verslunar.

„Samdráttur í innlendri kortaveltu á milli júlí og ágúst síðastliðnum bitnar jafnt á verslun og þjónustu. Íslendingar eyða nú minna í gistiþjónustu þegar sumarfríið er á enda en samdráttur í gistiþjónustu nam næstum 41%. Aukning mælist aftur á móti í tölvuþjónustu, um tæp 60%, sem getur gefið til kynna að landinn sé snúinn aftur til vinnu eftir frí,“ segir í tilkynningunni.

Kortavelta í stórmörkuðum og dagvöruverslun jókst um 6,7% á milli ára, í fataverslun um 7,2%, í byggingarvöruverslun um 7,3% og í lyfja- heilsu- og snyrtivöruverslun um 10,2% ef miðað er við ágústveltu frá því í fyrra.

Erlend kortavelta jókst

Erlend kortavelta jókst um 5% á milli mánaða og nam rúmum 24 milljörðum króna í ágúst. Hlutfall erlendrar kortaveltu af heildarkortaveltu á Íslandi var tæp 24% síðasta mánuði en sama hlutfall var 13,25% í fyrra og 30,6% í ágúst 2019.

Ferðamenn frá Bandaríkjunum eyða nú minna en undanfarna mánuði en eru þó ábyrgir fyrir stærstum hluta erlendrar kortaveltu hér á landi eða 38,3% í ágúst. Velta eykst hlutfallslega mikið á milli mánaða á greiðslukortum sem gefin eru út á Ítalíu, Spáni og Japan sem bendir til aukins fjölda ferðamanna frá þeim löndum.

Hlutdeild netverslunar með áfengi 3,3%

Rannsóknarsetrið birtir mynd þar sem velta netverslana með áfengi er skoðuð ásamthlutfall hennar af heildarkortaveltu í áfengisverslun. Í síðasta mánuði nam netverslun með áfengi tæpum 86 milljónum króna, eða um 3,3% af heildarkortaveltu í áfengisverslun þann mánuðinn.

Velta netverslana með áfengi náði hámarki í lok síðasta árs og framangreint hlutfall fór mest yfir 5% í nóvember síðastliðnum. Hlutdeild netverslana á áfengismarkaðnum, hvað varðar kortaveltu, hefur síðan haldist í kringum 4% þar til í júlí þegar það fór undir 3% en er aftur komið í 3,3%.

Mynd tekin úr tilkynningu Rannsóknarseturs verslunarinnar.