Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna jókst um fjórðung í janúar miðað við sama mánuð í fyrra. Sá vöxtur var þó aðeins helmingur af þeim vexti sem  var á milli janúar 2012 og janúar 2013. Alls nam greiðslukortavelta erlendra ferðamanna 4,8 milljörðum króna í janúar sem er 26,5% aukning frá sama mánuði árinu áður. Í janúar í fyrra var þessi veltuaukning 56% frá sama mánuði árinu þar áður.

„Aukna greiðslukortaveltu má fyrst og fremst rekja til aukins fjölda ferðamanna en ekki vegna þessa þess að hver ferðamaður eyði meira en árið áður. Hver erlendur ferðamaður greiddi að jafnaði 103 þús. kr. með greiðslukorti sínu hér á landi í janúar síðastliðnum en 114 þús. kr. í janúar 2013. Þannig dróst kortavelta á hvern erlendan ferðamann saman um 10% á milli ára (hér eru ekki innifaldar úttektir á reiðufé í hraðbönkum eða í bönkum). Hugsanleg ástæða gæti verið að erlendir ferðamenn dvelji á landinu í skemmri tíma en áður,“ segir í frétt Rannsóknarseturs verslunarinnar.

49% aukning varð í kortaveltu erlendra ferðamanna í skipulagðar skoðunarferðir og ýmsa sérsniðna ferðaþjónustu eins og t.d. hvalaskoðun. Kortavelta í þennan útgjaldalið nam 1,2 milljörðum króna í janúar. Eftirtektarvert er að það er hærri upphæð en ferðamenn greiddu fyrir gistiþjónustu, sem hingað til hefur verið stærri útgjaldaliður. Í janúar greiddu erlendir ferðamenn 963 milljónir króna fyrir gistiþjónustu.