Kröftugur vöxtur virðist ætla að vera í einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi ársins ef marka má tölur um greiðslumiðlun. Þetta kemur fram í Morgunkornum Íslandsbanka. Í nýlega birtum tölum Seðlabankans um greiðslumiðlun kemur meðal annars fram að kreditkortavelta í júlí nam alls 29,1 ma.kr., sem jafngildir 9% aukningu að raungildi milli ára. Undanfarið hefur verið umtalsvert meiri vöxtur í erlendri kreditkortaveltu en innlendri. Nú er þessi munur minni en áður en erlend kreditkortavelta jókst um ríflega 10% í mánuðinum á meðan innlend jókst um 9%. Virðist aukinn vöxtur vera kominn í innlenda veltu og á kostnað þeirrar erlendu sem nú er að vaxa hægar en áður.