Kortavelta útlendinga hér á landi nam rúmlega 7,3 milljörðum króna í síðasta mánuði, sem er aukning upp á rúm 29% í krónum talið frá sama tíma í fyrra. Í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka segir að þetta rími ágætlega við tölur Ferðamálastofu Íslands um brottfarir erlendra ferðamanna frá landinu um Keflavíkurflugvöll. Samkvæmt þeim voru erlendir ferðamenn 62,8 þúsund í janúar sl. samanborið við 46,7 þúsund á sama tíma í fyrra. Jafngildir þetta 35% fjölgun á milli ára. Áhugavert er að fjöldi erlendra ferðamanna nú í janúar er ekki langt frá þeim fjölda sem var hér á landi á háannatíma (júlí og ágúst) árið 2006 og árin þar á undan.

Enn liggja ekki fyrir tölur um útflutningstekjur vegna ferðaþjónustu fyrir árið 2014 í heild, en í Morgunkorninu segir að gróflega megi áætla að þær hafi verið um 308 milljarðar króna. Inni í þeim tölum eru einnig tekjur íslenskra flugfélaga af því að flytja erlenda farþega, hvort sem það er til og frá Íslandi eða annars staðar í heiminum. Miðað við þetta mat Greiningar voru útflutningstekjur þjóðarbúsins vegna ferðaþjónustu 28% umfram útflutningstekjur sjávarútvegsins í fyrra, og 43% umfram tekjur af áliðnaði.

Þá segir í Morgunkorninu að útlitið sé bjart varðandi þjónustuviðskipti á árinu. Vísbendingar séu um að ekkert lát ætli að verða á fjölgun erlendra ferðamanna hingað til lands í ár, sem sé í raun alveg með ólíkindum miðað við þróun undanfarinna ára. Gæti vöxturinn í ár numið á þriðja tug prósenta frá síðasta ári. Miðað við þá spá megi áætla að ferðaþjónustan muni skila 342 milljörðum króna í gjaldeyri í ár, sem sé um tæpur þriðjungur af þeim 1.200 milljörðum sem Greining Íslandsbanka reiknar með að heildartekjur vegna vöru- og þjónustuviðskipta við útlönd verði á árinu.