Margrét Tryggvadóttir forstjóri Nova segir mikla samlegð fólgna í að þróa og bjóða upp á lausnir sem byggja ofan á öflugu dreifikerfi félagsins. Sem dæmi kynnti Nova nýlega þjónustuleið sem kölluð er Sjálfsvörn og tengist beint við farsímanet félagsins.

„Þar eru bara tækin nettengd þannig að kerfið gengur áfram jafnvel þótt heimanetið detti út eða jafnvel ef rafmagnið fer af.“

Þvert á tíðar spár sumra um yfirvofandi dauða fjarskiptafyrirtækja séu því horfur á stórauknum vexti í netþjónustu yfir farsímakerfið.

„Fram undan er mikið blómaskeið hvað þetta varðar í fjarskiptum því það verða sífellt fleiri tæki nettengd. Þú ert með heimatenginguna, fartölvuna, farsímann, úrið, bílinn, jafnvel hjólið, öll með sjálfstæða tengingu.“

Margrét telur þetta geta orðið eina mestu breytingu á hlutverki og rekstrarumhverfi fjarskiptafyrirtækja í seinni tíð, en markaðurinn fyrir farsímakort er þegar orðinn stærri en þjóðin, og telur í dag um 500 þúsund kort.

Þjónustusamningar gætu orðið stór tekjulind

Snjallúr með eigin tengingu hafa þegar rutt sér til rúms og eru vinsæl meðal annars til að geta farið út að hlaupa og til að vera tengdur umheiminum án þess að hafa símann meðferðis. Nova þjónustar þegar slík úr sérstaklega með svokallaðri Úrlausn.

Margir nýrri bílar eru einnig nettengdir og er þá til dæmis hægt að forhita þá og slökkva á hleðslu hvaðan sem er með símanum, hlusta á útvarpið í gegnum efnisveitur á borð við Spotify og jafnvel veita snjallsímum farþega nettengingu í gegnum wi-fi.

Þegar fram líða stundir gæti aukinn fjöldi nettenginga og eftir atvikum þjónustusamningar við framleiðendur eða rekstraraðila tengjanlegra snjalltækja hæglega orðið stór tekjulind að hennar mati, þótt alltaf sé erfitt að spá fyrir um framtíðina.

„Það sem ég get hins vegar fullyrt er að forsenda fyrir því að geta þjónustað öll þessi tæki er að hafa öfluga innviði.“

Fréttin er hluti af lengra viðtali við Margréti í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.