„Þetta verður mjög spennandi að sjá,“ segir Agnes Guðmundsdóttir, formaður félags kvenna í sjávarútvegi (KIS). „Hvort að störfum kvenna hafi fjölgað eða fækkað, hvort þau hafi færst til eða hvað.“

Agnes segir þó erfitt að fullyrða nokkuð um það hvort eitthvað hafi í raun breyst fyrr en en niðurstöður úr könnuninni liggja fyrir. Á síðustu árum hafi hins vegar orðið miklar breytingar orðið í greininni. Stóraukinni sjálfvirknivæðingu fylgir að störfin hafa verið að breytast og Agnes segir ekki er gott að meta hvaða áhrif það hefur haft á kynjahlutföllin í fyrirtækjunum.

Hún segir fleiri konur hafa verið að mennta sig í sjávarútvegstengdum greinum og þær eru að koma út á vinnumarkaðinn. Margar með menntun frá Háskólanum á Akureyri.

  • Agnes Guðmundsdóttir. MYND/HAG

„Svo er hefur verið heilmikil nýsköpun í sjávarútvegi. Mikið af flottum fyrirtækjum eru að spretta upp með alls konar afurðir,“ segir hún og nefnir sem dæmi að ýmsar snyrtivörur og sáravörur hafa verið unnar úr sjávarafurðum.

Könnunin 2017 staðfesti meðal annars að á meðal æðstu stjórnenda og framkvæmdastjóra voru mun fleiri karlar en konur, en hlutfallið hafi verið jafnara þegar kom að millistjórnendum. Líklegra var að konur væru meðal eigenda í fjölskyldufyrirtækjum og minni fyrirtækjum. Einnig kom í ljós að fyrirtæki í veiðum og vinnslu hafa hærra hlutfall kvenna í fastráðinni vinnu og í fullu starfi en önnur sjávarútvegstengd fyrirtæki.

Styrkja tengslanetið

„Félagið var stofnað árið 2013 með það markmið að fjölga konum og efla tengslanet kvenna innan sjávarútvegsins og styrkja þær. Þessi könnun núna er liður í því að kortleggja stöðuna og við getum svo fylgt því eftir.“

Fastur liður í starfsemi félagsins eru mánaðarlegir fundir og fyrir covid var reglulega farið í heimsóknir til fyrirtækja.

„Við vorum þá að skoða nýjustu vinnslurnar og skipin, kynnast iðnaðinum betur og sýna konunum eitthvað sem þær væru ekki dags daglega í. Markmiðið er alltaf fræðsla, auka þekkingu og styrkja tengslanetið. Í covid höfum við svo fært þetta yfir í meiri fræðslu á zoomfundum og líka verið með kynningar á fyrirtækjum, erlendum fyrirtækjum líka.“

Það er Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri sem sér um framkvæmd könnunarinnar í samstarfi við KIS og Ástu Dís Óladóttur, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Niðurstöðurnar verða kynntar á opnunarmálstofu Sjávarútvegsráðstefnunnar í nóvember, og einnig í greinum og á ráðstefnum.