Aðilar sem höfðu hagsmuni af afnámsáætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta lögðu sig mjög hart fram um að fá upplýsingar um með hvaða hætti hún yrði, áður en þær voru gerðar opinberar. Maður sem sagðist starfa fyrir fjárfesta við það að afla vitneskju um kröfur föllnu bankanna og íslensk fjárfestingartækifæri bauð íslenskum einstaklingi sem hafði aðgang að upplýsingum um afnámsáætlunina tugi milljóna í mútugreiðslur gegn því að fá skjöl eða aðrar hagnýtar upplýsingar afhentar.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins, sem vilja ekki koma fram undir nafni, segja að umræddur maður hafi komið frá Bandaríkjunum til Íslands síðasta vetur og sagst starfa við upplýsingaöflun fyrir fjárfesta (e. business intelligence). Sá hafi upphaflega verið áhugasamur um kröfur í slitastjórnum föllnu bankanna.

Kröfuhafar höfðu ráðgjafa á sínum snærum

Erlendi aðilinn, og þeir sem hann starfaði fyrir, virðast þó ekki hafa verið þeir einu sem stunduðu virka hagsmunagæslu í eigin þágu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hélt því fram í ræðu á flokksþingi Framsóknarflokks 10. apríl að kröfuhafar hefðu haldið úti fulltrúum til þess að afla upplýsinga um áhrifamenn við afnám fjármagnshafta. „Reglulega eru skrifaðar leyniskýrslur hérlendis fyrir kröfuhafana þar sem veittar eru upplýsingar um gang mála á Íslandi, í stjórnmálunum, opinberri umræðu, fjármálakerfinu o.s.frv.,“ sagði forsætisráðherra í ræðu sinni.

Einn heimildarmanna Viðskiptablaðsins segir að það sé rétt hjá Sigmundi að skýrslur hafi verið skrifaðar um helstu leikendur í afnámi fjármagnshafta. „Það var ýmislegt gert. Ráðgjafar kröfuhafa voru mjög duglegir við að koma sér upp tengslum á Íslandi og fylgjast með því sem var að gerast,“ segir hann. Sú upplýsingaöflun hafi veriðí því skyni að afla einhvers sem gæti nýst kröfuhöfum áður en afnámsáætlunin væri tilbúin.

Settu sig í samband við fólk í kokteilboðum

Viðkomandi segir að ráðgjafarnir hafi haft það hlutverk að setja sig í samband við fólk sem gæti haft upplýsingar um afnámsáætlunina, til dæmis í kokkteilboðum. „Svo gefa þeir skýrslu þegar þeir koma til baka. Ég fór í þetta boð og talaði við þessa, og þeir höfðu þetta að segja.“ Oft á tíðum hafi þessir ráðgjafar gefið skýrslur um fólk sem þeir þekktu fyrir.

Spurður hvers konar upplýsingar hafi verið um að ræða segir heimildarmaðurinn að algengt hafi verið að prófílar væru gerðir um fólk. Þar hafi meðal annars komið fram „hvaða skoðanir viðkomandi hefur, við hverja talar hann, og hvort þetta sé einhver sem hefur völd“. Ef svo væri fylgdu gjarnan upplýsingar um frá hverjum viðkomandi myndi þiggja ráðgjöf og á hverja hann myndi hlusta. Þannig væru völd og möguleg áhrif kortlögð fyrir kröfuhafa, í því skyni að geta haft sem mest áhrif á niðurstöðuna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .