Í dag hófst Yom Kippur hátíðin í Ísrael en dagurinn er þekktur sem friðþægingardagurinn og er einn helgasti hátíðisdagur Gyðinga. Á þessum degi árið 1973 í tímatali gyðinga hófst Yom Kippur stríðið þegar innrásarherir arabaríkja freistuðu þess að koma Ísrael á kné.

Fyrr á árinu úrskurðaði yfirréttur í landinu að einungis trúarráð Rabbína, sem er meginstofnun trúarmála gyðingdóms í landinu megi úrskurða mat sem Kosher, eða í samræmi við matarreglur gyðingdóms. Ráðið hefur fullt vald yfir öllum trúarlegum málum í landinu, þar á meðal giftingum og skilnuðum.

Samkeppnisvalkostur við Kosher

Nú er hins vegar komin upp samkeppni frá Rabbínanum Aaron Lebowits sem stofnaði hið svokallaða Alternative Kosher Supervision Project, sem rukkar einungis brot af því sem trúarráðið rukkar fyrir að skilgreina mat Kosher.

Í Ísrael ráða matsölustaðir og neytendur sjálfir hvort þeir velja að maturinn sé Kosher, en til þess þurfa matsölustaðir og aðrir að fara eftir reglum um hvernig dýrunum sé slátrað, en einnig hvernig matreiðslan fari fram, en til að mynda mega kjöt og mjólkurafurðir ekki snertast.

Lannon Polon, hótelstjóri Ramat Rachel hótelsins í Jerúsalem segir að hótelið borgi starfsmönnum trúarráðsins sem sjá um að maturinn teljist Kosher beint og kostar það hótelið um 23 þúsund ísraelska shekela, eða rúmlega 700 þúsund króna á ári fyrir þjónustuna.

Ýtir undir spillingu

„Á liðnum árum hefur einokun trúarráðs Rabbína, ýtt undir spillingu í versta falli og í besta falli þá er enginn samkeppni,“ segir Lebowitz rabbíni.

„Vegna þess að það er engin samkeppni, þá verða gæði þjónustunnar, gæði eftirlitsins og einnig kostnaðurinn ósamkeppnishæf og ekki á háu stigi. Ef þú vilt koma í veg fyrir svik, þá einokar þú ekki valdið í einni ríkisstofnun.“

Sem afleiðing af úrskurði hæstaréttarins þá geta einungis þeir veitingastaðir sem ráða starfsmenn trúarráðsins til sín sagt matinn Kosher, en þeir veitingastaðir sem fylgja valkosti Lebowitz rabbína verða að sleppa orðinu Kosher en þeir merkja sig samt sem áður með stimpli samtakanna.