Lundúnarbúar ganga að kjörkössunum í dag og velja nýjan borgarstjóra. Tveir menn takast á um embættið, þeir Ken Livingstone, sem gegnt hefur starfinu síðastliðin átta ár, og íhaldsmaðurinn Boris Johnson. Í síðustu útgönguspám er hinum síðarnefnda spáð naumum sigri. Í síðustu skoðanakönnun sem Evening Standard framkvæmdi var Johnson sem 7% forskot á Livingstone. Skoðanakannanir annars staðar frá gefa þó stundum til kynna minni mun, en Johnson virðist hafa forskotið.

Livingstone, sem jafnan gengur undir viðurnefninu „Red Ken” sökum vinstrisinnaðra viðhorfa sinna hefur verið umdeildur í starfi. Hann samdi meðal annars við Venezúela um ódýrari olíu fyrir strætisvagna Lundúnaborga og uppskar mikla gagnrýni íhaldsmanna fyrir vikið.

Boris Johnson hefur lengi verið meðal skrautlegri stjórnmálamanna Bretlands. Meðal ummæla sem hann lét falla í aðdraganda kosninga til breska þingsins voru svohljóðandi: „Ef þú kýst íhaldsmenn mun barmur eiginkonu þinnar stækka, og líkurnar á því að þú eignist BMW M3 bifreið aukast til muna.”