Hluthafar í Scottish & Newcastle, stærsta bjórframleiðanda Bretlandseyja, munu hittast á morgun til að kjósa um sameiginlegt yfirtökutilboð Carlsberg og Heineken. Yfirtökutilboðið nemur 7,8 milljörðum punda, en talið er nánast öruggt að því verði tekið og atvæðagreiðslan því formsatriði. Búist er við að endanlega verði gengið frá samningum í apríl. BBC greinir frá þessu í dag.

Fyrirætlun Carlsberg og Heineken er að skipta Scottish og Newcastle upp á milli sín, en meðal tegunda sem fyrirtækið bruggar eru Fosters, John Smith's, Newcastle Brown Ale og Kronenburg 1664.

Heineken mun þannig taka yfir starfsemina í Bretlandi, á meðan Carlsberg tekur yfir alla starfsemi utan Bretlands. Auk þess mun Carlsberg taka yfir starfsemi í Rússlandi, sem er sameiginlegt verkefni við annað stórt bruggfyrirtæki, Baltic Beverage Holding.

Yfirtökutilboð Heineken og Carlsberg, sem teljast verður óvinveitt, var lagt fram í lok síðasta árs. Upphaflegt tilboð hljóðaði upp á 720 pens á hlut, sem stjórnin hafnaði. Síðar samþykkti hún nýtt tilboð upp á 800 pens á hlut.