Á fundi Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í Valhöll í dag klukkan 17:15 verður tekin ákvörðun um hvort farin verði blönduð leið í prófkjöri flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Tillaga stjórnar Varðar er að ekki verði blásið til hefðbundins prófkjörs, en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa einnig verið hugmyndir uppi í flokknum um að prófkjör verði haldið í febrúar, sem mörgum finnst of skömmu fyrir kosningar.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um virðist sem sumir borgarfulltrúar flokksins séu þegar farnir að skoða framboðsmöguleika hvor leiðin sem verði farin, en samkvæmt tillögunni verður leiðtogavalið haldið 21. október næstkomandi. Er tímasetningin meðal annars valin til að góður tími gefist til að kynna nýjan oddvita fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Hvetur flokksmenn til að sameinast um leiðtogakjör

Friðrik Þór Gunnarsson formaður Heimdallar er einn þeirra sem lýst hefur yfir stuðningi við tillögu Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Friðrik, sem situr í stjórn Varðar fyrir hönd Heimdallar, birti grein í Fréttablaðinu í gær þar sem hann hvetur flokksmenn til að sameinast um leiðtogakjör en hann segir blönduðu leiðina tryggja að sá oddviti sem verði fyrir valinu muni hljóta sterkt umboð.

„Fram er komin tillaga frá Verði, fulltrúaráði Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, um að haldið verði leiðtogaval og síðan stillt upp í önnur sæti af kjörnefnd. Þetta er nýstárleg og spennandi leið sem hefur fengið góðar undirtektir hjá flokksmönnum,“ segir Friðrik og bendir á að á undanförnum árum hafi þátttaka í almennum prófkjörum farið minnkandi.

„Blandaða leiðin þar sem oddvitinn er kjörinn í sérkosningu tryggir að fylkt verði liði á bak við leiðtoga með sterkt umboð.“ Í prófkjörinu fyrir síðustu alþingiskosningar kusu 3.400 flokksmenn í Reykjavík sem er versta kjörsókn í prófkjöri flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum frá upphafi en árið 2012 kusu um 7.500 flokksbundnir sjálfstæðismenn.

Óánægja með að listinn hafi ekki verið samhentur í stjórnarandstöðu

Grunnhugmyndin að leiðtogavali er sú að haldið verði prófkjör um forystusæti flokksins í borginni, það er oddvitann, en valnefnd, kjörin af fulltrúaráðinu, sem telur um 2.200 manns, velji í sætin sem á eftir koma.

Ástæðan er ekki síst minnkandi fylgi flokksins í borginni, en margir Sjálfstæðismenn hafa verið óánægðir með að listinn hafi ekki verið samhentur í stjórnarandstöðu, og má þar nefna sem sérstakt dæmi að hluti borgarfulltrúa flokksins hafa kosið með aðalskipulagi meirihluta vinstriflokkanna.

Ef litið er yfir sögu flokksins í borginni þá þekktust ekki prófkjör fyrir árið 1970, en þá, og fram til 1986 voru haldin prófkjör. Hins vegar var ekki prófkjör 1990, en svo aftur 1994 og 1998.

Eftir uppstillingu árið 2002 hlaut flokkurinn 27.516 atkvæði í borginni, en fjórum árum síðar í kjölfar prófkjörs hlaut hann 27.823 atkvæði. Eftir opið prófkjör 2010 minnkaði fylgi flokksins og fór niður í 20.006 og loks 2014 eftir opið prófkjör hlaut hann 14.031 atkvæði.