Danska löggjafarþingið mun í dag kjósa um hvort að samþykkja umdeild lög. Lögin heimila töku verðmæta af flóttamönnum við komu til landsins, en tilgangurinn er að greiða fyrir þann kostnað sem leiðir af komu flóttamanna til landsins.

Verðmæti sem eru umfram 10.000 danskar krónur, um 190.000 íslenskar, verða samkvæmt nýju lögunum gerð upptæk. Upphæðin átti upphaflega að vera 3.000 krónur danskar, um 57.000 íslenskar krónur. Upphæðin var hækkuð í kjölfar gagnrýni að þá mætti gera upptæka persónulega muni, s.s. giftingarhringi. Samkvæmt nýju lögunum þá þurfa flóttamenn einnig að bíða í þrjú ár áður en þeir geta sótt um að fá fjölskyldu sína til landsins.

Danmörk og Svíþjóð hafa undanfarið hert landamæralöggjöf landanna til að draga úr komu flóttamanna til landsins og segja nýju lögin lið í þeirri áætlun.

Löggjöfin hefur hlotið gagnrýni frá Amnesty International, sem sagði að löggjöfin myndi hafa veruleg áhrif á fólk í viðkvæmri stöðu, og flóttamannanefnd Sameinuðu þjóðanna.

Forsætisráðherra Danmerkur, Lars Lokke Rasmussen sagði að löggjöfin væri ein sú misskildasta í sögu Danmerkur. Hann sagði að frá september hefðu 91.000 flóttamenn komið til Danmerkur.