Antonis Samaras, oddviti stjórnarandstöðunnar í Grikklandi, krafðist þess í gærkvöld að George Papandreou forsætisráðherra segði af sér, ryfi þing og boðaði kosningar, þessu næst gengu þingmenn mið-og hægri flokka úr þingsal. Þetta kemur fram á RÚV. Tillaga um vantraust á ríkisstjórn sósíalista verður borin upp í dag.

Hermt er að Papandreou sé reiðubúinn að víkja úr embætti gegn því að flokkssystkin sín felli tillöguna. Sósíalistar hafa nauman meirihluta á gríska þinginu, skipa 152 sæti af 300. Ummæli Samaras virðast útiloka myndun samsteypustjórnar sósíalista og mið-og hægriflokka. Staða Papandreous hefur veikst eftir að hann neyddist til að taka aftur yfirlýsingar um þjóðaratkvæðagreiðslu um ný björgunarlán Evrópusambandsins, og aðrar ráðstafanir, í þágu Grikkja. Samingar tókust um björgunarpakkann í fyrri viku. Samkvæmt þeim fengju Grikkir ný lán upp á 130 milljarða evra, helmingur skulda þeirra hjá einkabönkum og fjármálastofnunum yrði afskrifaður. Á móti kæmi enn meiri og rótttækari niðurskurður ríkisútgjalda og skattahækkanir.