Vantrauststillaga Þórs Saari verður tekin til umræðu og atkvæðagreiðslu á Alþingi í dag og hefst umræðan um klukkan 10:30. Tillaga Þórs er önnur slík tillaga á tveimur vikum sem hann leggur fram, en ekki kom til að sú fyrri fengi afgreiðslu á Alþingi vegna þess að hann dró hana til baka.

Í greinargerð með tillögunni segir að hún beinist gegn ríkisstjórninni þar sem hún sitji í umboði meiri hluta þings,en þingið geti ekki afgreitt frumvarp til stjórnskipunarlaga byggt á þeim drögum sem samþykkt var að leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu í október í fyrra.

„Lýðræðisumbætur sem lofað var í aðdraganda kosninga hafa ekki séð dagsins ljós og enn er við lýði ójafn kosningarréttur eftir landshlutum, ójafnrétti í fjármálum stjórnmálaflokka og skortur á persónukjöri og beinu lýðræði,“ segir í greinargerðinni.