Í ár verður Innipúkinn haldinn á þremur stöðum í Reykjavík en þeir eru Faktorý, Kex og Fellahellir. „Aðaldagskráin verður á Faktorý en staðurinn lokar um miðjan ágúst svo okkur Innipúkum fannst rétt að nýta síðustu daga þessa frábæra tónleikastaðar. Svo er líka hægt að ganga beint út af Faktorý út í Hjartagarðinn og þar verður hægt að upplifa smá útihátíðarstemningu fyrir þá sem vilja,“ segir Diljá Ámundadóttir framkvæmdastjóri Innipúkans og framkvæmdastjóri Þetta reddast ehf.

Innipúkinn 2013.
Innipúkinn 2013.

Verslunarmannahelgin er ein mesta ferðamannahelgi ársins þar sem hægt er að sækja útihátíðir víða um land. En útilegur og ferðalög eru ekki allra. Þeir sem ætla ekki út á land geta gert ýmislegt, eins og farið á tónlistarhátíðina Innipúkann sem nú er haldin í tólfta sinn.

Samkvæmt veðurspánni eru allar líkur á því að veðrið verði gott í Reykjavík nú um helgina. „Þá er nú ekki annað hægt en að nýta útisvæðiðtil fulls og jafnvel skella í eitt gott vatnsbyssustríð í Hjartagarðinum,“ segir Diljá og lofar mjög miklu stuði um helgina. Á Faktorý mun margt gott tónlistarfólk stíga á svið eins og Steed Lord, Geiri Sæm, Valdimar, Botnleðja, Grísalappalísa og Skelkur í bringu og fleiri. „Við ætlum líka að bjóða gestum sem vilja troða upp að gera slíkt og á laugardagskvöldinu á Faktorý verður hægt að skrá sig í karókí,“ segir Diljá.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .