Kosningaloforð stjórnmálamanna ættu alla jafna að kynda undir væntingar landsmanna og þær því að aukast í mánuðinum, að mati Greiningar Íslandsbanka. Capacent Gallup birtir væntingarvísitölu mars á morgun. Greining Íslandsbanka bendir á það í Morgunkorni sínu í dag að oftast nær hafi hún lækkað á milli mánaða í mars og rifjar upp að í fyrra hafi hún lækkað um heil 11 stig, þ.e. farið úr 76,7 stigum niður í 65,7 stig.

Ekkert fast í hendi

Reyndar bendir greiningardeildin á að hún hafi ekki alltaf tippað á rétta niðurstöðu væntingarvísitölunnar. Áður en vísitalan var birt í síðasta mánuði bjóst greiningardeildin við að hún myndi hækka, ekki síst í kjölfar sýknudóms í Icesave-málinu. Niðurstaðan varð á hinn veginn, þ.e. hún lækkaði um 1 stig, fór úr 81,7 stigum í 80,7 stig.

Greining Íslandsbanka segir:

„Verður athyglisvert að fylgjast með hvernig væntingar neytenda munu þróast að þessu sinni nú þegar kosningabaráttan fyrir alþingiskosningar er að fara í gang af fullum krafti með tilheyrandi loforðum um betri tíð, sem ætti að öðru jöfnu að kynda undir væntingar landsmanna.“