*

mánudagur, 15. júlí 2019
Innlent 28. september 2016 09:40

Kosningaóvissa veldur töfum

Engar skráningar á Aðallista Kauphallarinnar á árinu, óvissa vegna kosninga virðist halda aftur af félögum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Engin félög hafa verið skráð á Aðallista Kauphallarinnar á árinu, en Páll Harðarson forstjóri Kauphallarinnar, segist fullviss um að komandi kosningar hafi seinkað áformum einhverra fyrirtækja um skráningu.

Verið að bíða eftir kosningum

„Núna erum við að upplifa ákveðið millibilsástand sem hefur ríkt frá því í vor, að verið sé að bíða eftir kosningunum. Skráningar eru auðvitað eitthvað sem tekur lengri tíma að undirbúa,“ segir Páll í viðtali við Fréttablaðið.

„en ég þykist þess fullviss af því sem ég hef heyrt að þetta hafi heldur seinkað áforum einhverra...Einhver fyrirtæki sem hafa verið að velta fyrir sér skráningu og hafa verið komin áleiðis, eða verið að vinna í undirbúningi skráningar, hafa talað um að það verði ekki fyrr en eftir kosningar. En það er eðlilegt í sjálfu sér.“

Skeljungur ætlaði á markað

Á árinu var Iceland Seafood skráð á First North markaðinn. „Ég vonast til þess að við náum skráningu á Aðallista á árinu. Skeljungur var búinn að gefa það út að þeir stefndu á markað og ég vona að það gangi eftir,“ segir Páll.

„Svo er margt sem spilar með okkur. Ég held að á þessu ári og því næsta förum við að sjá nýjar skráningar.“

Áberandi skil

Kosningar hafa ekki síður áhrif á viðskiptahliðina segir Páll.

„Frá því fyrir kosningarnar 2013 og fram á mitt ár 2014 þá var margvísleg óvissa í gangi. Við fundum að dró úr viðskiptum, og svo var verið að bíða eftir skuldaleiðréttingunni, aðgerðum um losun hafta og niðurstöðum kjarasamninga,“ segir Páll sem segir þessi mál hafa leysts snemmsumar 2014 og í kjölfarið hafi hlutabréfamarkaðurinn farið í 18 mánaða uppsveiflu.

„Þannig að það eru áberandi skil þegar leysist úr óvissunni og fólk metur þetta sem góð skilyrði.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is