Bretar ganga að kjörborðinu í dag en síðustu kannanir í Bretlandi benda til þess að enginn flokkur nái meirihluta á breska þinginu eins og venja er.

Íhaldsflokkurinn hefur síðustu daga og vikur mælst stærstur með um 35% fylgi á meðan Verkamannaflokkurinn, sem nú er í meirihluta, hefur verið að mælast með um 30%.

Hins vegar er það óvænt fylgi frjálslyndra demókrata, sem hafa mælst með um og yfir 25% fylgi, sem kemur á óvart en ef fer sem horfir mun það gerast í fyrsta skipti frá árinu 1974 að enginn flokkur nær hreinum meirihluta. Það hefur aðeins einu sinni gerst frá árinu 1945.

Rehn varpar sprengju

Ljóst er að efnahagsmál eru Bretum ofarlega í huga. Þrátt fyrir að breskum stjórnvöldum hafi, með gífurlegri peningaprentun Englandsbanka, tekist að bjarga flestum af stóru bönkum landsins frá gjaldþroti hafa Bretar ekki farið varhluta af þeim efnahagserfiðleikum sem riðið hafa yfir heimsbyggðina síðustu 2 ár eða svo.

Það hefur því varla verið Gordon Brown, forsætisráðherra og leiðtoga Verkamannaflokksins, mikið gleðiefni þegar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) gaf í gær út viðvörun um skuldastöðu Bretlands.

Á blaðamannafundi í Brussel í gær varaði Olli Rehn, framkvæmdastjóri hagstjórnar efnahags- og gjaldeyrismála ESB, við því að skuldir Breta yrðu að öllum líkindum hæstar allra ríkja innan ESB í lok þessa árs. Þá býst ESB við því að skuldir Breta muni nema um 90% af VLF Bretlands í lok næsta árs, 2011. Þá gerir ESB jafnframt ráð fyrir 12% fjárlagahalla á þessu ári en til upplýsinga má geta þess að viðmið evrusamstarfsins, sem Bretar eiga að vísu ekki aðild að, eru 3%.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .