Uppljóstranir um spillingu í Namibíu sem íslenska fyrirtækið Samherji er sakað um að hafa nýtt sér og jafnvel ýtt undir með því að grafa undan eftirlitskerfum í landinu, komu fram rétt áður en kosið er í landinu til þings og forseta. Sami flokkurinn hefur stýrt landinu frá sjálstæði árið 1990, en nú horfir landið fram á efnahagslegan samdrátt þriðja árið í röð.

Eftir margra mánaða rannsóknarvinnu á Samherjaskjölunum svokölluðu sem unnin voru í samstarfi RÚV, Stundarinnar og Al-Jazeera stöðvarinnar, var tímasetning sjónvarpsþáttarins Kveiks, sem sýndur var á þriðjudagskvöldinu 12. nóvember þar sem ásakanirnar voru birtar, áhugaverð í ljósi stjórnmála Afríkuríksins.

Daginn eftir, þann 13. nóvember fór nefnilega fram utankjörfundaratkvæðagreiðsla fyrir þing- og forsetakosningar í landinu, en þær fara sjálfar fram eftir rétta viku, eða miðvikudaginn 27. nóvember.

Utankjörfundaratkvæðagreiðslan fór einungis fram þennan eina dag, en í þeim geta kjósendur sem staddir eru erlendis, þeir sem munu vinna á skipum og því ekki í landi þann 27. og svo starfsmenn öryggissveita sem þurfi að vera við störf á kjördaginn sjálfan. Þeir sem ætla að ferðast úr landi eftir 14. nóvember gátu þó ekki kosið líkt og hér á landi.

Sami sósíalistaflokkurinn stýrt landinu í þrjá áratugi

Í kosningunum mæta þingmenn og forsetaframbjóðandi SWAPO, sósíalíska stjórnarflokksins sem stýrt hefur landinu frá sjálfstæði árið 1990, 10 öðrum forsetaframbjóðendum og þingframbjóðendum frá 13 öðrum stjórnmálaflokkum. Í síðustu kosningum árið 2014 hlaut forsetaframbjóðandi SWAPO, sitjandi forseti Hage Geingop sem fer nú fram til endurkjörs 87% atkvæða en hann fékk 80% til þingkosninganna sem fram fóru samhliða, og þar með 77 af 104 þingsætum. Geingop sat áður sem forsætisráðherra landsins.

Í þeim kosningum var þingsætum í landinu fjölgað úr 72 í 104 þingsæti, samhliða því að stjórnarflokkurinn tók upp kynjafléttulista og svokallað sebra kerfi þar sem því var lofað að ef ráðherra í einhverju máli væri af einu kyni yrði aðstoðarráðherrann af hinu kyninu. Jafnframt voru það fyrstu kosningarnar þar sem notað var við rafrænt kosningakerfi sem gagnrýnendur segja auðveldi mögulegt svindl.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa tveir hákarlanna svokölluðu sem fjallað var um að hefðu þegið mútur, það er ráðherrar flokksins í sjávarútvegsmálum og dómsmálum, þeir Bernhard Esau og Sacky Shanghala sagt af sér, eftir þrýsting frá Geingop. Jafnframt hefur verið farið fram á afsögn tveggja til viðbótar, þeirra Mike Nghipunya og James Hatuikulipi, framkvæmdastjóra og stjórnarformanni ríkisútgerðarinnar Fishcor.

Stunduðu skæruhernað gegn Suður Afríku

Nafn flokksins, Southwest Africa´s People´s Organisation, sem stendur fyrir Þjóðfylking Suðvestur Afríku, vísar til eldra nafn landsins sem var þýsk nýlenda en lengst af undir stjórn Suður Afríku eftir yfirtöku þess í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar. Flokkurinn er meðlimur í Alþjóðasambandi sósíalista, sem Samfylkingin dró sig úr árið 2017.

Fyrir sjálfstæðið og friðarviðræður í aðdraganda þeirra við stjórnvöld í Suður Afríku stundaði SWAPO skæruhernað í landinu, þá sérstaklega í norðurhluta þess þar sem þeir njóta stuðnings stærsta ættbálksins í landinu, Ovambo fólkið sem samsvarar um helmingi af þessari 2,6 milljón manna þjóð. Nærri hálf milljón Ovambo fólks býr í nágrannaríkinu Angóla.

Aðrir stórir ættbálkar eru Herero fólkið, en um fjórir fimmtu þeirra var útrýmt í kjölfar uppreisnar gegn þýskum nýlenduherrum í byrjun 20. aldar, Damara og Himba fólkið. Þeir fyrstnefndu eru nú um 250 þúsund manns, Damara eru tæplega 200 þúsund og Himba um 50 þúsund manns. Um 8% íbúanna eru svo svokallaðir Litaðir, það eru blandaðir hvítum og oft búskmönnum, síðan eru hvítir um 4 til 7% íbúanna, en auk þess búa í landinu hópar búskmanna, oft kallaðir San eða Nama fólk, og svo allt að 40 þúsund Kínverjar.

Stjórnarandstaðan minnkað úr ríflega 40% fylgi

Enginn stjórnarandstöðuflokkanna hafa hingað til notið mikils fylgis, enda SWAPO þakkað sjálfstæðið, en sá stærsti þeirar, frjálslyndi íhaldsflokkurinn Lýðræðishreyfing almennings, hlaut 4,8% atkvæða í þingkosningunum síðast og 5 þingmenn. Sá flokkur breytti nýlega um nafn en á rætur að rekja til Lýðræðisbandalagsins sem kennt var við Turnhalle ráðstefnuna, þar sem borgaraleg öfl í landinu sátu í samningaviðræðum við stjórnvöld í Suður Afríku um stjórn svæðisins en gengu síðan út þegar stjórnin krafðist þess að eigin reglur um kynþáttaaðskilnað yrði framfylgt á svæðinu.

Flokknum hefur þó verið legið á hálsi fyrir að hafa starfað með stjórnvöldum í Suður Afríku meðan á stjórn þess á landsvæðinu stóð. Lýðræðishreyfingin starfar í alþjóðasamtökum lýðræðisflokka, en sá flokkur á Íslandi sem starfar í þeim er Sjálfstæðisflokkurinn.

Næst stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þingi í Namibíu er Fylkingin fyrir lýðræði og framförum sem fékk 3,5% atkvæða og 3 þingmenn, en hann er klofningur út úr SWapo flokknum. Aðrir flokkar eru með 1 til 2 þingmenn og oft fulltrúar ákveðinna minnihlutahópa, þar á meðal Lýðveldisflokkurinn sem hvíti minnihlutinn styður, sem er með 1 þingmann, og svo á einn minnsti flokkurinn einnig rætur til borgarastríðsins, SWANU, Þjóðarbandalag Suðvestur Afríku, var einnig sósíalísk uppreisnarhreyfing líkt og stjórnarflokkurinn SWAPO, en í þessu tilviki byggður á stuðningi Herero ættbálksins.

Áhrif frá landadeilum í Suður Afríku hjá nýjum flokki

Í aðdraganda kosninganna nú hafa deilur um eignarrétt á landi blossað upp í Namibíu, ekki ósvipað og í nágrannaríkinu Suður Afríku, þar sem flokkurinn Efnahagsfrelsisfylkingin þrammar um í rauðum búningum með rauðar berettur líkt og tíðkast í Venesúela og krafist þjóðnýtingar og endurdreifingar á landi.

Líkt og þar á systurflokkurinn Namibíska Efnahagsfrelsisfylkingin rætur í ungliðahreyfingu stjórnarflokksins, en klauf sig frá stjórnarflokknum og hefur sett eignarrétt svartra á landi á oddinn fyrir kosningarnar nú. Sá flokkur hefur þó, sameinast um forsetaframbjóðanda með Lýðveldisflokki hvítra, hinum óháða frambjóðanda Panduleni Itula, sem er tannlæknir sem áður var í SWAPO.

Í síðustu kosningum í landinu, árið 2014, jók SWAPO fylgi sitt úr um 75% bæði til forseta og þings í kosningunum 2009, sem flokkurinn hefur haldið í öllum kosningum í landinu utan þeirra fyrstu árið 1989 í aðdraganda nýs stjórnskipulags, þegar flokkurinn fékk 57% atkvæða til stjórnarskrársþings hins nýja ríkis sem síðan varð þing landsins við sjálfstæði. Þá hlaut Lýðræðisbandalagið kennt við Trunhalle tæplega 29% atkvæða, Sameina lýðræðisfylkingin tæplega 6%, Kristna þjóðarátakið ríflega 4% og þrír aðrir flokkar minna en náðu hver einum manni inn á þing.

Hvort uppljóstranirnar nú, rétt fyrir kosningarnar í landinu, dugi til að fella eða a.m.k. draga úr allsherjartökum hins sósíalíska SWAPO flokks á stjórnkerfinu, kemur í ljós í næstu viku.