Venesúela mun halda þingkosningar á sunnudaginn nk. en miklir hagmunir eru í húfi fyrir landið. Stjórnarandstaðan hefur lofað að snúa frá stjórnastefnu Hugo Chavez sem hefur ráðið ríkjum í landinu síðustu 17 árin.

Fyrir þremur áratugum voru lífsgæði í Venesúela með þeim hæstu í Suður-Ameríku en landið ræður m.a. yfir stærri olíulindum en Sádí-Arabía. Í dag, 17 árum eftir byltingu, er varla hægt að kaupa klósettpappír í landinu og landið er með næst hæstu morðtíðini í heiminum samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Auk þess mun efnahagur landsins dragast saman um 10% á árinu 2015 samkævmt skýrslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, en það er mesti efnahagssamdráttur í heiminum að Sýrlandi undanskildu. Landið er neðst á lista World Justice Report, en skýrsla samtakana skoðar gæði réttarríkisins ríkja heimsins.

AGS metur verðbólgu í landinu vera í kringum 159%, þó er erfitt að dæma um það þar sem stjórnvöld setja opinbert gengi bólívarsins gagnvart Bandaríkjadal. Þrátt fyrir að gengi bolivar hafi hrunið á síðastliðnum tveimur árum þá hafa stjórnvöld ekki aðlagað opinbert gengi.

Jafnvel þótt landið hafi gríðarlegar olíubirgðir þá hafa þeir ekki aukið við framleiðslu þrátt fyrir efnahagsörðuleika og erfileika í ríkisfjármálum. Hluta af þeirri ástæðu má rekja til þess að olíuverð er niðurgreitt til almennings, það er dýrt að vinna olíu í olíulindum Venesúela og ekki hefur verðið fjárfest nægilega í iðnaðinum. Gríðarlegar lækkanir á heimsmarkaðsverði á olíu hafa einnig ekki hjálpað til, en um 95% af útflutningstekjum landins koma vegna olíuútflutnings.