Leiðtogi frönsku þjóðfylkingarinnar, Marine Le Pen reynir að láta komandi forsetakosningar í landinu í maímánuði vera ígildi þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið.

Gerir hún það með því að setja fram stefnu sína um að draga Frakkland út úr sambandinu og sameiginlegum gjaldmiðli þess ef hún vinnur.

Ætlar að búa til körfu gjaldmiðla óánægjuþjóða

Hún fór einnig fram árið 2012 með loforði um að draga landið úr evrusamstarfinu í einu vetfangi, en í þetta sinn reynir hún að setja fram nákvæmari áætlun um hvernig hún hyggist gera það í tilraun til að höfða til breiðari hóps franskra kjósenda.

Segir hún að í stað þess að hoppa úr sameiginlega gjaldmiðlinum í flýti með þeirri óvissu sem því myndi fylgja stefni hún nú að því að eyða fyrstu sex mánuðum stjórnar sinnar í að semja við aðrar óánægðar evruaðildarþjóðir um hálfgerða myntkörfu. Þannig yrði nýútgefinn franskur franki gengistengdur hinni nýju myntkörfu sem kæmi í stað evrunnar.

Segir Le Pen að aðrar þjóðir Evrópu sem eru óánægðar með reglur sambandsins yrðu viljugar til að ganga til samninga um að leysa upp sambandið. Hótunin um að þær yrðu að yfirgefa evruna hefur að hennar sögn verið notuð til að kúga Grikkland og önnur suður evrópsk ríki til að samþykkja aðhaldsaðgerðir sem þjóðir þeirra hafa hafnað.

Evran notuð sem vopn

„Evran hefur ekki verið notuð sem gjaldmiðill, heldur sem vopn, eins og hnífur stunginn inn á milli rifbeina landsins til að neyða það til að fara þangað sem þjóðin vill ekki fara,“ sagði Le Pen við fréttamenn að því er Wall Street Journal segir frá.„Haldið þið að við samþykkjum að búa við slíka hótun, slíka stjórn? Það er algerlega óásættanlegt.“

Kannanir í Frakklandi sýna að þó að þjóðin vilji fá meira vald til baka frá Brussel, sé ekki meirihluti fyrir því að yfirgefa sameiginlega gjaldmiðilinn. Í síðustu forsetakosningum í landinu hlaut Le Pen 17,9% fylgi í fyrri umferð kosninganna.