*

mánudagur, 22. júlí 2019
Fjölmiðlapistlar 3. júní 2018 10:23

Kosningaskjálfti

Það er erfitt að halda því fram að fjölmiðlar hafi rækt skyldur sínar vel að því leyti í aðdraganda kosninga.

Andrés Magnússon
Sanna Magdalena Mörtudóttir
Aðsend mynd

Kvöldið fyrir kjördag fóru fram kappræður frambjóðenda í borgarstjórnarkosningunum í Ríkissjónvarpinu venju samkvæmt. Þar vakti sérstaka athygli að Einar Þorsteinsson spurði Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, oddvita Sósíalistaflokksins, út í samskipti Gunnars Smára Egilssonar við verkalýðinn meðan hann gaf út Fréttatímann sællar minningar, eins og meðal annars hefur verið fjallað um í þessum dálkum. Smári var helsti hvatamaður að stofnun Sósíalistaflokksins, en ekki löngu áður höfðu starfsmenn Fréttatímans sakað hann um að hafa hlunnfarið sig vísvitandi í aðdraganda þess að blaðið lognaðist út af.

Sanna svaraði því til að Smári væri ekki í framboði og hefði ekki verið eini stofnandi flokksins á sínum tíma. Sumum þótti spurning Einars vera óviðurkvæmileg, hann hefði gengið lengra gagnvart Sönnu en öðrum frambjóðendum og hefði þá að minnsta kosti átt að spyrja fleiri út í viðskiptasögu þeirra eða annarra forystumanna flokka þeirra.

Nú er það alveg rétt, að þessi spurning var nokkuð á skjön við aðrar spurningar, sem beint var að frambjóðendum þetta kvöld. Sumir vildu gera Einari upp pólitískar hvatir í þeim efnum, en merkilegt nokk sakaði enginn hann um stéttvísi, sem þó hefði verið í góðu samræmi við umræðuefnið.

En var spurningin óeðlileg? Skemmst er að minnast þess að ýmsir frambjóðendur Miðflokksins fengu spurningar um fjárreiður og hreinskilni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þegar hann stofnaði flokkinn fyrir kosningarnar í fyrra. Í ljósi þess að málflutningur Sósíalistaflokksins byggir mjög á móraliseringum um hversu grátt auðvaldið leiki öreigana var alls ekki óeðlilegt að sú spurning kæmi fram, ekki síst vegna þess að svo stutt er síðan til flokksins og framboðsins í borginni var stofnað, að heita má að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem færi gafst á að inna oddvitann eftir þessu. Af svörunum mátti enda ráða að Sanna var viðbúin spurningum um nákvæmlega þetta. 

En hefði Einar þá ekki átt að spyrja aðra frambjóðendur svipaðra spurninga? Svarið við því er nei. Ekki vegna þess að ekki megi tína til slíkar spurningar, heldur af því að þær hafa áður komið fram og verið margsvarað. Í þætti sem þessum er leitast við að draga fram það sem ekki er vitað fyrir, skerpa á mun helstu sjónarmiða og þar fram eftir götum. Þar er markmiðið ekki það að spyrja alla sömu spurninga, enda yrði þátturinn þá óbærilega staðlaður, óathyglisverður og leiðinlegur. Þvert á móti er það hlutverk spyrlanna að velja spurningar sem hæfa hverjum fyrirsvaranda. Í þágu þáttarins sjálfs og áhorfenda.

Viðbrögðin við spurningu Einars voru sum heiftarleg og orðljót, sem ef til vill á ekki að koma á óvart á hátindi kosningabaráttu (þó Gunnar Smári uppljóstraði raunar í Silfri Egils daginn eftir kosningar að hann hefði gert sér upp skapofsann í áróðursskyni).

Gagnrýnin á Einar einkenndist af slíku offorsi og atvinnurógi, að það er sérstakt áhyggjuefni, ekki síst þegar stjórnmálamenn áttu í hlut. Það fer ekki vel á því að þeir reyni að kúska fjölmiðla til með þeim hætti.

Sérstaklega var tínt til að hann hefði tekið þátt í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins fyrir tveimur áratugum, líkt og það hefði afgerandi áhrif nú og ekkert hafi gerst í lífi hans síðan, en fjölmiðlarýnir veit ekki til þess að hann hafi síðan komið nálægt stjórnmálum. Hitt er annað mál að margt fjölmiðlafólk á slíkan bakgrunn, enda varla skrýtið að fólk með áhuga á á þjóðmálum gefi sig að slíku. Eða fjölmiðlun. 

En það voru ekki allir að þykjast neitt í þeim efnum, sem lýsir um margt misskilningi eða ranghugmyndum um hlutverk blaðamanna. Það er beinlínis í verkahring þeirra að spyrja erfiðra, jafnvel óþægilegra, spurninga. Oft virðist erfitt að gera nokkrum til hæfis í því og blaðamenn til skiptis sakaðir um of mikla linku eða hörku. Þeim ber hins vegar skylda til þess að leita svara, jafnvel með atgangshörku ef þarf. Það þýðir ekki að þeir þurfi að gera það með dónaskap, enda er sú sjaldnast raunin. Kannski oftar að kvarta megi undan of mikilli tillitssemi eða stimamýkt. Þarna spurði Einar hins vegar einfaldrar spurningar (af fyllstu háttvísi) og gekk eftir svari þegar honum fannst Sanna reyna að koma sér hjá svari. Og ekkert að því.

Það er frekar að það megi gagnrýna fjölmiðla almennt fyrir að þessi spurning hafi ekki komið fram áður, því þó hún væri réttmæt þá var hún óneitanlega býsna seint fram komin kvöldið fyrir kjördag. Sósíalistaflokkurinn og frambjóðendur hans höfðu ekki hlotið mikla athygli fjölmiðla fram að því og alls ekki fengið gagnrýnar spurningar um stefnu flokksins eða málefni, hvað þá hugmyndafræðilegan grundvöll eða fortíð helsta forsvarsmanns hans.

Eina viðleitnin í þá veru var í Beinni línu DV, þar sem almenningur gat komið spurningum á framfæri. Það var gott framtak hjá DV, þó spurningarnar reyndust nú fæstar beinskeyttar. 

Það er erfitt að halda því fram að fjölmiðlar hafi rækt skyldur sínar vel að því leyti í aðdraganda kosninga, ekki aðeins hvað Sósíalistaflokksins áhrærir, heldur ýmsa aðra smáflokka.

Þá erum við hins vegar komin að annarri spurningu um skyldur fjölmiðla við gangverk lýðræðisins. Hversu langt eiga þeir að ganga í kynningu á framboðum? Við blasir að kosningar og það hverjir veljast til þess að standa við stjórnvölinn á erindi við almenning, fólk er forvitið um frambjóðendur og málstað þeirra, og vill taka upplýsta ákvörðun í kjörklefanum. Fyrir vikið leitast fjölmiðlar að koma til móts við það.

Það er hins vegar ekki sama hvernig það er gert og fjölmiðlar verða að beita dómgreind og fréttamati við það. Þannig flytja þeir að öðru jöfnu fleiri og ýtarlegri fréttir af framboðum og kosningabaráttu í höfuðborginni en segjum Árneshreppi á Ströndum. Og þeir hika ekki við að segja meira frá málflutningi stóru flokkanna en hinna minni, að ekki sé minnst á örflokkana. Eins og vera ber. Það snýst ekki um þöggun eða hömpun, heldur einfalda ritstjórn. 

Það getur hins vegar verið snúið, svona í ljósi hefðar um að allir skuli sitja við sama borð. Sérstaklega nú, þegar til sumra framboða er beinlínis efnt í því skyni að fá fjölmiðlaaðgang til þess að vekja athygli á tilteknum málstað, sem oft kemur eiginlegum stjórnmálum ekkert við (eins og sjá má á því að færri kusu suma flokkana en báru þá fram). Þar sem verið er að bjóða fram til fjölmiðla frekar en stjórnvaldsins. Það er misnotkun á lýðræðisfyrirkomulaginu og það er misnotkun á gestrisni fjölmiðla við frambjóðendur.

Við þessu hafa nær allir miðlar brugðist hver á sinn hátt, en Ríkisútvarpið á bágast með það. Það er fjölmiðill með sérstakt hlutverk í almannaþágu og ber að kynna öll þessi framboð. Þess vegna var brugðið á það ráð að velja í efri og neðri deild kappræðnanna, þar sem stóru flokkarnir og þessir um miðbikið voru saman í einum þætti, en örflokkarnir í öðrum. Það var skárra en ekkert, en samt eiginlega varla nægjanlegt. Þegar 8 flokkar eru saman um tæplega klukkutíma þátt, þar sem um það bil 6 mínútur koma í hlut hvers frambjóðanda, blasir við að umræðan verður mjög yfirborðsleg.

Í nágrannalöndunum er algengt að slíkir þættir séu 1-11/2 klukkutími, oft fleiri en einn þáttur, en þar eru þátttakendur sjaldnast fleiri en 3-5.

Aðrir fjölmiðlar gætu sem hægast miðað við skoðanakannanir og haft slíka þætti aðeins fyrir flokka, sem fá 10% eða meira, en það væri snúnara fyrir Ríkisútvarpið. Tala nú ekki um eins og kosningafyrirkomulagið er, þar sem 23 sæti eru til skiptanna og ljóst að smáflokkar geta ráðið úrslitum um framhaldið, eins og komið er á daginn. Málflutningur þeirra á því augljóslega erindi við fleiri en þá, sem gætu hugsað sér að kjósa þá.

Að því leyti mætti halda fram að kosningafyrirkomulagið sé orðið flóknara en svo, að unnt sé að gera kjósendum viðunandi grein fyrir þeim mönnum og málefnum, sem þar eru í boði. Sérstaklega þegar þröskuldar framboða eru svo lágir. En það er þá frekar verkefni fyrir stjórnvöld að leysa, vilji þau ekki auka frekar á fjarlægðina milli almennings og umboðsmanna þeirra.