Í forsetakosningunum var kosningaþátttakan 75,7%, hún var nokkru minni meðal karla en kvenna og munaði meira en 20 prósentustigum milli kosningaþátttöku yngsta og elsta aldurshópsins. Nálega fjórðungur kjósenda kaus utankjörfundar, þetta kemur fram á vef Hagstofunnar í dag.

Kosningaþátttaka elsta hópsins 87%

Mest var kosningaþátttakan meðal þeirra sem voru á aldrinum 65-74 ára, eða 87%, en upp frá því lækkaði hún með aldri og var hún minnst meðal kjósenda á aldursbilinu 20 til 24 ára, eða 63,1%. Kosningaþátttakan var litlu meiri reyndar meðal 18-19 ára, eða 63,8%.

Á kjörskrá voru 244.896 manns, sem nemur 73,6% landsmanna. 185.430 manns greiddu síðan atkvæði sem er 75,7% kjósenda. Kosningaþátttaka kvenna var meiri eða 79,0% en meðal karla var hún einungis 72,4%. Af heildarfjölda atkvæða sem voru greidd, voru 23,1% þeirra greidd utankjörfundar.

Guðni kjörinn með 39,1% atkvæða

Af frambjóðendunum níu sem buðu sig fram til forseta hlaut Guðni Th. Jóhannesson flest atkvæði, eða 71.356 sem nemur 39,1% gildra atkvæða. Var hann því kjörinn forseti Íslands fyrir kjörtímabilið frá 1. ágúst 2016 til 31. júlí 2020.

Aðrir frambjóðendur voru Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson.