Hasim Thaci, forsætisráðherra Kosovo lýsti yfir sjálfstæði landsins á þingfundi en þingið var kallað saman til aukafundar í dag vegna þessa. Hann sagði að frá og með þessum degi yrði Kosovo sjálfstætt og fullvalda ríki.

Stjórnvöld í Serbíu hafa áður lýst yfir andstöðu sinni við sjálfstæðisyfirlýsingu Kosovo. Þar njóta Serbar fyrst og fremst stuðnings yfirvalda í Rússlandi auk stjórnvalda í Moldóvíu og Georgíu. Vojislav Kostunitsja, forsætisráðherra Serbíu sagði þó að ekki standi til að beita hervaldi.

Búist er við því að flest ríki í Evrópu auk Bandaríkjanna viðurkenni sjálfstæði hins nýja ríkis á næstunni og sagði Bush Bandaríkjaforseti meðal annars á blaðamannafundi í morgun að hann styddi sjálfstæði landsins. Hann sagði að stjórnvöld í Washington myndu ásamt bandamönnum sínum koma í veg fyrir átök og ofbeldi í héraðinu.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra sagði við fjölmiðla í vikunni að Ísland myndi ekki taka af skarið við að viðurkenna sjálfsstæði Kosovo. Hún sagði að efnt yrði til norræns samstarfs og eiga mætti von á því að norðurlandaþjóðirnar viðurkenni sjálfstæði Kosovo.